KR gerði jafntefli við KA á Meistaravöllum í kvöld. Það stefndi allt í sigur gestanna frá Akureyri en Finnur Tómas Pálmason jafnaði metin í uppbótartíma, lokatölur 2-2. Stigið gerir ekki mikið fyrir heimamenn sem eru nú án sigurs síðan 20. maí síðastliðinn.
Stefán Árni var í byrjunarliði KR og sýndi skemmtilega takta meðan hans naut við. Hann meiddist hins vegar aftan í læri og var tekinn af velli á 36. mínútu. Þetta var aðeins fimmti leikur hans á leiktíðinni en hann var í námi í Madríd á Spáni og missti því af upphafi leiktíðar. Nú er ljóst að KR-ingar verða einnig án hans í næstu leikjum.
Þetta voru ekki einu slæmu tíðindin fyrir KR-inga í kvöld þar sem markaskorarinn og fyrirliðinn í kvöld, Finnur Tómas, nældi sér í gult spjald og verður því ekki með þegar KR heimsækir HK í Kórinn þann 7. ágúst næstkomandi.
Meiðsli Stefáns Árna gætu vart komið á verri tíma en leikmannahópur KR er heldur þunnskipaður þessa dagana. Fyrir á meiðslalistanum eru þeir Birgir Steinn Styrmisson, Aron Kristófer Lárusson, Theódór Elmar Bjarnason og Kristján Flóki Finnbogason. Þá er Lúkas Magni Magnason í námi í Bandaríkjunum og leikur því ekki meira með liðinu á leiktíðinni.
Jákvæðu fréttirnar eru hins vegar þær að Jóhannes Kristinn Bjarnason sneri til baka í síðari hálfleik eftir að hafa ristarbrotnað fyrr á leiktíðinni. Þetta var aðeins hans fjórði leikur í deildinni í ár.