Srdjan Tufegdzic stýrði Val í fyrsta sinn gegn gamla liðinu sínu, KA, fyrir norðan. Aðeins eitt mark var skorað í leiknum. Það gerði Viðar Örn Kjartansson á lokamínútu fyrri hálfleiks. Frederick Schram, markvörður Vals, var rekinn af velli á 59. mínútu fyrir brot á Viðari.
KA er taplaust í síðustu sjö leikjum og er í 8. sæti deildarinnar með 22 stig, tveimur stigum frá sæti í efri hlutanum. Valur, sem hefur tapað tveimur leikjum í röð, er í 3. sætinu með 28 stig.
Magnús Þórðarson var hetja Fram gegn Stjörnunni. Hann skoraði sigurmark liðsins í uppbótartíma. Djenairo Daniels kom Fram yfir með sínu fyrsta marki fyrir félagið eftir klukkutíma en Örvar Eggertsson jafnaði fyrir Stjörnuna á 73. mínútu. Magnús tryggði Fram svo sigurinn.
Framarar hafa unnið þrjá af síðustu fjórum leikjum sínum og eru komnir upp í 5. sæti deildarinnar, einu sæti ofar en Stjörnumenn.
Breiðablik styrkti stöðu sína í 2. sæti deildarinnar með 3-0 sigri á Fylki á heimavelli. Höskuldur Gunnlaugsson skoraði tvívegis úr vítaspyrnum fyrir Blika og Viktor Örn Margeirsson var einnig á skotskónum. Fylkismenn eru í ellefta og næstneðsta sæti deildarinnar með tólf stig.
Mörkin úr leikjum gærdagsins má sjá hér fyrir ofan.