Skoðun

Máum út illsku með ást

Ásthildur Sturludóttir skrifar

Hinsegin dagar 2024 eru nú haldnir undir kjörorðunum menning, mannréttindi, fjölbreytileiki. Þetta er hátíð okkar allra sem gerum þá skýlausu kröfu að fólk fái að njóta frelsis til að vera það sjálft og láta ljós sitt skína á eigin forsendum með gleðina að leiðarljósi.

Þessa daga, sem og alla aðra daga, á ekkert okkar að vera útilokað, við eigum öll erindi og við fögnum saman litríkum fjölbreytileika, kærleikanum og þeim mannréttindum sem öllum skulu tryggð.

Hvers konar ofbeldi og andúð gegn hinsegin fólki og ákveðnum hópum samfélagsins má aldrei líðast. Hatursorðræða er hættuleg og vindur undraskjótt upp á sig. Niðurrif og skemmdarverk á táknmyndum fjölbreytileikans eru frækorn haturs.

Ísland er þegar á allt er litið frjálslynt og opið þegar kemur að réttindum hinsegin fólks. Það er skylda okkar allra að halda því þannig um ókomna tíð.

Leyfum öllum að blómstra. Kveðum niður lágkúrulega fordóma með brosi, umburðarlyndi, kærleika og ást. Fjöllum á upplýstan hátt um rétt okkar allra til að vera við sjálf. Máum út illsku með ást.

Fögnum fjölbreytileikanum, verum þau sem við erum og gleðjumst saman á hinsegin dögum.

Höfundur er bæjarstjóri á Akureyri.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×