Aðeins efsta lið deildarinnar kemst beint upp í Bestu deildina og það stefnir í harða baráttu á milli Fjölnis og ÍBV. Bæði lið gerðu jafntefli í sínum leikjum í kvöld og er Fjölnir því áfram með eins stigs forskot á Eyjamenn, eftir að Eyjamenn köstuðu hreinlega frá sér sigri í Eyjum í kvöld.
Fjölnir gerði markalaust jafntefli við Njarðvík á útivelli og er því með 33 stig, stigi meira en ÍBV. Keflavík kemur næst þar á eftir með 28 stig, eftir markalaust jafntefli við Leikni í Breiðholtinu þar sem Omar Sowe klúðraði víti Leiknismanna á 61. mínútu, sem Ásgeir Orri Magnússon varði.
Njarðvík og ÍR eru svo í 4. og 5. sæti með 27 stig, þremur stigum á undan Aftureldingu og fjórum á undan Þrótti, í harðri baráttu um sæti í umspilinu en þangað fara liðin í 2.-5. sæti.
Þróttarar lönduðu nefnilega 3-1 sigri á Gróttu í Laugardalnum, eftir að hafa verið 1-0 undir í hálfleik eftir mark Kristófers Melsted.
Viktor Steinarsson, Kári Kristjánsson og Liam Daði Jeffs skoruðu mörk Þróttara í seinni hálfleiknum.
Gróttumenn eru því áfram á botni deildarinnar með 13 stig, fjórum stigum á eftir Leikni sem er í 10. sæti og fyrir ofan fallstrikið.
Allar upplýsingar um markaskorara eru af vef Fótbolta.net.