Þetta sagði McKellen í viðtali við tímaritið Saga magazine. Hann segist enn vera að jafna sig á áverkunum - hann er enn með handlegginn í fatla og stoðkraga um hálsinn.
McKellen var á sviði fyrir sýninguna Player Kings - nýtt leikrit sem sameinar leikritin fyrsta og annan hluta Hinriks IV - í leikhúsinu Noel Coward í Lundúnum þegar hann hrasaði og datt. Í verkinu leikur hann Falstaff, eins og áður segir, sem er persóna sem kemur fyrir í nokkrum leikritum Shakespeare og er eitt helsta einkenni hans íturvöxtur.
Þegar fréttir bárust af fallinu var greint frá því að McKellen hafi meitt sig illa í fallinu og hrópað upp fyrir sig af sársauka. Hann hafi verið fluttur á sjúkrahús í snarhasti og leikritinu frestað um tíma.
„Ég hef endurupplifað fallið ég veit ekki hversu oft. Þetta var hræðilegt. Þetta gerðist í bardagasenu. Ég festi fótinn minn í stól og þegar ég reyndi að hrista hann af mér rann ég á dagblaði, sem hafði verið dreift um sviðið. Þetta var eins og ég væri á hjólabretti,“ segir McKellen í samtali við Saga.
„Því meira sem ég reyndi að losa mig við dagblaðið því hraðar datt ég niður af sviðinu og í kjöltuna á einhverjum á fremsta bekk. Ég fór að kalla „hjálpið mér!“ og svo „fyrirgefið mér! Ég geri ekki svona!“ Þetta var rosalegt. Mér leið eins og þetta væru endalokin á einhverju. Ég var í miklu uppnámi.“
McKellen brákaði hryggjarlið og úlnlið og er enn að jafna sig. Hann segist í góðum höndum á meðan hann heldur sig heima og jafnar sig. Nágrannar hans og tvö, ung vinapör hafa undanfarnar vikur aðstoðað hann.
„Ég þarf sífellt að sannfæra sjálfan mig um að ég sé ekki of gamall til að leika og að þetta hafi bara verið slys. Vinnan er leið fyrir mig til að... ekki neita því að ég sé að eldast heldur til að fá mig til að hugsa um eitthvað annað.“