Heimir var ráðinn aðalþjálfari Írlands í júlí og lagði á það áherslu að fá O‘Shea sem aðstoðarmann. Eyjamaðurinn taldi það mikilvægt í ljósi þess að O‘Shea væri öllum hnútum kunnugur en hann hafði verið tímabundið aðalþjálfari liðsins í hálft ár.
O‘Shea fékk að hafa mikil áhrif á valið á fyrsta landsliðshópi Heimis, fyrir leikina við England og Grikkland, á meðan að Heimir er enn að kynnast þeim leikmönnum sem honum standa til boða. Og O‘Shea er sáttur við hlutverk sitt.
„Líkar hvernig hann horfir á hlutina“
„Ég er hérna til að styðja við stjórann í Þjóðadeildinni og undankeppni HM,“ sagði O‘Shea samkvæmt Irish Independent, en þar segir að orðrómur hafi verið um að O‘Shea færi aftur að starfa hjá félagsliði. Hann gaf lítið fyrir það.
„Við höfum séð hvað hlutirnir geta breyst í fótbolta en ég fór af fullum huga í viðræður við stjórann um hvernig við myndum vilja vinna þetta.
Þegar við hittumst þá varð strax til mjög gott traust á milli okkar, samtalið var gott, um hvernig hann vill hafa hlutina einfalda og árangursríka. Mér líkar hvernig hann horfir á hlutina.
Það þurfti ekkert að sannfæra mig. Maður sá strax að hvað persónuleika og traust snertir þá myndi ég njóta þess að vinna með honum og auðvitað að læra af honum,“ sagði hinn 43 ára O‘Shea sem eftir 12 ár undir stjórn Sir Alex Ferguson ætti að hafa ýmislegt til að miðla sjálfur.

„Góð manneskja til að læra af“
Hann hefur hins vegar sáralitla þjálfarareynslu og vill læra af Heimi. O‘Shea vissi að írska knattspyrnusambandið væri að leita að aðalþjálfara og fékk fréttir af leitinni.
„Það var síðan lykilatriði fyrir mig að fara yfir hlutina af yfirvegun, og sjá „nei, þetta er í alvörunni gott fyrir mig.“ Ég er enn að læra og þetta er góð manneskja til að læra af,“ sagði O‘Shea og kvaðst ekki geta beðið eftir því að kynna leikmenn fyrir Heimi.
Írland mætir Englandi laugardaginn 7. september, í beinni útsendingu á Vodafone Sport, og tekur svo á móti Grikklandi þremur dögum síðar.