Lið AC Milan og Lazio gerðu 2-2 jafntefli þegar liðin mættust í Serie A deildinni á Ítalíu í kvöld. Varnarmaðurinn Strahinja Pavlovic kom Milan yfir í fyrri hálfleik en Taty Castellanos og Boulaye Dia sneru stöðunni við fyrir Lazio með tveimur mörkum á fjögurra mínútna kafla um miðjan síðari hálfleikinn.
AC Milan náði hins vegar að jafna og tryggja sér eitt stig þegar Rafael Leao skoraði á 72. mínútu. Lokatölur 2-2 og Milan því enn án sigurs eftir fyrstu þrjá leikina í ítölsku úrvalsdeildinni á tímabilinu. Lazio hefur unnið einn af sínum þremur leikjum og er í 8. sæti.
Í Napolí tóku lærisveinar Antonio Conte á móti Parma. Það stefndi allt í 1-0 sigur gestanna eftir að Ange-Yoan Bonny hafði komið Parma í 1-0 í fyrri hálfleik. Þannig var staðan allt þar til komið var fram í uppbótartíma en þá sneru leikmenn Napoli taflinu heldur betur við.
Fyrst jafnaði Romelu Lukaku metin í 1-1 í sínum fyrsta leik fyrir félagið og Frank Anguissa skoraði sigurmarkið tveimur mínútum síðar og tryggði Napoli 2-1 sigur.
Napoli er þar með komið með sex stig eftir þrjár umferðir á Ítalíu en Parma er með fjögur stig og situr í 9. sætinu.