Í bókun bæjarstjórnar er lögð áhersla á að ná fram ásættanlegri niðurstöðu í viðræðum við ríkið um þau áherslumál sem verkefnahópurinn sammæltist um að gætu ráðið úrslitum um hvort af farsælli sameiningu sveitarfélaganna yrði.
Niðurstaða verkefnahópsins var að forsenda fyrir farsælli sameiningu sveitarfélaganna væri sú að reglum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði breytt þannig að framlög til sameinaðs sveitarfélags verði að lágmarki ekki lægri en samanlögð framlög til sveitarfélaganna í dag og að sameinað sveitarfélag fái yfirráð yfir landi í eigu ríkisins innan marka þess til jákvæðrar uppbyggingar húsnæðis og atvinnulífs.
Þá taldi verkefnahópurinn nauðsynlegt að mótuð verði skýr stefna um bættar almenningssamgöngur milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja, sem taki mið af núverandi þörfum íbúa og atvinnulífs á svæðinu sem og uppbyggingu á svæðinu til framtíðar.
Sama tillaga samþykkt í Reykjanesbæ
Í tilkynningu frá bænum um málið er bent á að bæjarstjórn Reykjanesbæjar hafi samþykkt tillögu sama efnis á fundi sínum þann 3. september.
Verkefnahópnum tók til starfa í febrúar á þessu ári og var ætlað að leiða óformlegar viðræður um sameiningu sveitarfélaganna og vinna mat á því hvort fýsilegt væri að hefja formlegar viðræður um sameiningu sveitarfélaganna sem myndi svo ljúka með íbúakosningu.

Hópurinn tók í vinnu sinni saman greinargerð með ýmsum upplýsingum um stöðu sveitarfélaganna, skipulag þeirra og þjónustu. Við mat á því hvort fýsilegt sé að hefja formlegar viðræður um sameiningu sveitarfélaganna skoðaði hópurinn ýmsa þætti varðandi rekstur þeirra, fjárhag, íbúasamsetningu og fleira til að varpa ljósi á það hvort líklegt megi telja að sameining yrði íbúum til hagsbóta.