Real Sociedad tók á móti Real Madrid og mátti þola 0-2 tap. Orri Steinn Óskarsson byrjaði á bekknum en kom inn á í seinni hálfleik.
Boðið var upp á mikið fjör frá fyrstu mínútu, bæði lið fengu úrvals færi en Real Sociedad gat bölvað markrammanum fyrir að vera ekki yfir, skutu tvisvar í stöngina í fyrri hálfleik og áttu síðan annað skot í stöng í fyrstu sókn seinni hálfleiks en eftir það tók Real Madrid völdin.
Arda Guler átti skot að marki á 58. mínútu sem fór í hönd varnarmanns og vítaspyrna dæmd. Vinicíus Junior steig á punktinn og skoraði.
Hann fiskaði svo vítaspyrnu sjálfur á 75. mínútu þegar Jon Aramburu felldi hann í teignum, en í þetta sinn fékk Kylian Mbappé að taka spyrnuna, og skoraði af öryggi.

Orri Steinn Óskarsson byrjaði á varamannabekk Real Sociedad en kom inn á 63. mínútu fyrir Umar Sadiq.
Honum tókst ekki að setja mark sitt á leikinn, sem lauk með tveggja marka sigri Real Madrid.
Real Sociedad hefur safnað fjórum stigum í fyrstu fimm leikjunum og situr í 16. sæti deildarinnar. Real Madrid er í öðru sæti með ellefu stig, stigi á eftir Barcelona.