Félagið var úrskuðað gjaldþrota sumarið 2014 og var skiptum í búið lokið í október 2024. Tilkynning um skiptalok er birt í Lögbirtingablaðinu í dag. Jóhannes Ásgeirsson skiptastjóri segir að handvömm hafi orðið við birtingu auglýsingarinnar sem nú sé loks komin í loftið.
Heildarkröfur í þrotabúið námu einum milljarði og 476 milljónum króna. Þrjár milljónir fengust greiddar upp í kröfurnar. Jóhannes segir kröfuna svo til eingöngu hafa verið frá viðskiptabanka félagsins, Landsbankanum.
Gissur Rafn Jóhannsson og Pálmi Ásmundsson áttu hvor um sig 37 prósent hlut í félaginu og Ásdís Halldórsdóttir og Gyða Þórðardóttir 13 prósent. Í síðasta ársreikningi félagsins, fyrir árið 2012, kom fram að eigið fé í árslok var neikvætt um 1,4 milljarð króna.
„Í kjölfar falls íslensku bankanna haustið 2008 hefur algjör stöðnun ríkt á bygginga- og fasteignamarkaði í kjölfarið,“ segir í ábendingum endurskoðanda í ársreikningnum.
Byggingastarfssemi félagsins og dótturfélaga var stöðvuð við fall bankanna haustið 2008 þegar sköpuðust óvenjulegar og sérstakar aðstæður á íslenskum fjármálamarkaði. Í framhaldi af því hefði fjárhagsstaða félagsins versnað vegna mikillar veikingar íslensku krónunnar þar sem skuldir við lánastofnanir voru að stærstum hluta í erlendri mynt.
„Þrátt fyrir lækkun lána um 1.753 mkr árinu 2011 vegna endurútreiknings þá er eigið fé félagsins neikvætt um 1.470 milljónir króna í árslok 2012. Lánasamningar hafa gjaldfallið á árunum 2010 til 2012. Náist ekki að endurfjármagna félagið, þ.m.t. með niðurfellingu skulda, verður það ekki rekstrarhæft. Fyrirtækið er í samningaviðræðum við viðskiptabanka sinn um framtíð þess.“
Tap Blikastaða árið 2012 nam 268 milljónum króna. Stjórn sagði óvissu um áframhaldandi rekstur félagsins sem var svo úrskurðað gjaldþrota árið 2014.