Skoðun

Dauða­refsing Pírata

Sigurjón Þórðarson skrifar

Flokkur fólksins lagði fram frumvarp í síðustu viku sem felur í sér að heimilt verði að vísa hættulegum glæpamönnum úr landi þó svo þeir hafi fengið hér stöðu flóttamanns.

Þingmaður Pírata fann það út í umræðunni með langsóttum og ógeðfelldum hætti að með því væri Flokkur fólksins að leggja til dauðarefsingu. Hún Arndís Anna margtuggði vitleysuna svo oft að hún virtist vera farin að trúa áburðinum. Auðvitað snýst málið um hag Íslands og Íslendinga þannig að hægt sé vísa stórhættulegum síafbrotamönnum úr landi.

Það er ótrúlegt að þetta ákvæði sé ekki nú þegar í lögum en Inga Sæland lagði breytinguna til síðastliðið vor en þá guggnuðu ríkisstjórnarflokkarnir á að samþykkja málið. Í stað þess að segja þjóðinni satt um hver hindrunin væri fyrir þessu þjóðþrifamáli þá settu sumir Sjálfstæðismenn á einhvern kjaftavaðal um að óljós lagatækni stæði í veginum.

Eins og fyrr segir þá var frumvarpið lagt að nýju fram í síðustu viku, enda bólar ekkert á frumvarpi sem dómsmálaráðherra boðaði að ætti að koma sama efnis á haustþingi. Skýringin á biðinni kom fram í viðtali við tilvonandi formann VG, Svandísi Svavars en hún greindi frá því að hún hefði bannað Sjálfstæðisflokknum að koma fram með frekari frumvörp um útlendingamál.

Það er alveg kristaltært að VG er í harðri samkeppni við bæði Sósíalista og sérstaklega Pírata um atkvæði þeirra sem vilja leggja niður landamærin og hleypa öllum sem hingað reka á fjörur landsins hæli með tilheyrandi útgjöldum.

Baráttan er hörð um þessi fáu atkvæði þar sem hluti þingmanna Samfylkingarinnar virðast einnig hafa blandað sér nýlega með krafti í baráttuna.

Okkur í Flokki fólksins teljum rétt að senda þá með hraði úr landi sem hafa misnotað gestrisni landsmanna, m.a. kynferðisafbrotamenn. Hvers vegna eru Píratar, VG og fleiri á móti því?

Höfundur er varaþingmaður í Norðvesturkjöræmi. 




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×