Þetta kemur fram í færslu Lögreglunnar á Suðurlandi á Facebook. Þar segir að lögreglan vilji taka fram að hún sé ekki að sekta ökumenn bifreiða, sem eru komnar á nagladekk, þótt slík dekk séu almennt aðeins leyfð frá 1. nóvember til 15. apríl.
„Veturinn er hins vegar byrjaður að gera vart við sig og hitastig oft á tíðum undir frostmarki á nóttunni og viðbúið að frost og hálka séu byrjuð að láta á sér kræla þetta árið.“
Embættinu hafi borist fjöldi fyrirspurna frá ökumönnum um nagladekkjanotkun og því sé það undirstrikað að ökumenn bifreiða, sem eru búnar nagladekkjum, eigi ekki sekt yfir höfði sér.