Þetta hefur Yonhap fréttaveitan eftir heimildarmönnum innan leyniþjónustu Suður-Kóreu, sem segja þessa ákvörðun hafa verið tekna nýlega.
Yonhap hefur þó einnig eftir aðstoðarvarnarmálaráðherra Suður-Kóreu, að mögulega sé Kim að senda borgara til vinnu í verksmiðjum Rússlands, í stað þess að senda hermenn. Hvort það sé liggi ekki fyrir að fullu.
Kim Seon Ho, umræddur aðstoðarráðherra, segir að ef Kim Jong Un sé að senda hermenn til Rússlands sé það vegna þess að hann telji það sér í hag að gera það og hann sé að gera það í skiptum fyrir eitthvað frá Rússum.
Staðfestu flutning sérsveitarmanna
Leyniþjónustan birti í morgun yfirlýsingu um að verið væri að flytja sérsveitarmenn frá Norður-Kóreu til Rússlands og birti einnig gervihnattamyndir af flutningi þeirra. Þeir eru sagðir hafa verið sendir til Rússlands í ágúst með umfangsmikilli hergagnasendingu.
Í yfirlýsingunni segir að við komuna til Rússlands fái hermennirnir rússneska hergalla og fölsuð skilríki sem líti út eins og þeir séu frá héruðum Síberíu. Nú séu þessir sérsveitarmenn staðsettir í herstöðvum í austurhluta Rússlands, þar sem þeir séu að fá þjálfun, og síðar standi til að senda þá á víglínuna í Úkraínu og Kúrsk.
AP fréttaveitan segir Yoon Suk Yeol, forseta Suður-Kóreu, hafa setið neyðarfund í morgun þar sem flutningur hermanna frá Norður-Kóreu til Rússlands hafi verið ræddur. Allir sem setið hafi fundinn hafi verið sammála um að þessar vendingar væru ógn við öryggi Suður-Kóreu og alþjóðasamfélagið.
Myndband sem hefur verið í dreifingu á samfélagsmiðlum fyrir austan á að sýna hermenn frá Norður-Kóreu í þjálfun í Rússlandi. Hvað myndbandið sýnir í rauninni hefur þó ekki verið staðfest.
Footage is circulating online, allegedly showing North Korean soldiers training in Russia.
— WarTranslated (Dmitri) (@wartranslated) October 18, 2024
The head of the HUR, Budanov, reported that Russia plans to send 2,600 soldiers to Kursk by November 1. pic.twitter.com/xnYdedZHC8
Sagði Rússa þurfa að fylla upp í raðir sínar
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, hélt því fram í gær að um tíu þúsund hermenn frá Norður-Kóreu yrðu sendir til Rússlands og lýsti því sem miklu vandamáli. Forsetinn sagði Rússa þurfa að fylla upp í raðir sínar vegna mikils mannfalls í Úkraínu.
Forsvarsmenn leyniþjónustu úkraínska hersins höfðu áður slegið á svipaða strengi og sagt fjölmiðlum að Rússar væru að stofna herfylki sem myndað væri með hermönnum frá Norður-Kóreu.
Mark Rutte, nýr framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, sagði í gær að þar á bæ hefðu ekki fundist sannanir fyrir því að hermenn frá Norður-Kóreu væru að berjast í Úkraínu.
Hins vegar væri ljóst að Kim Jong Un styddi Rússa með ýmsum leiðum, eins og hergagna-, eldflauga- og skotfærasendingum. Það væri mikið áhyggjuefni.