Með þessum sigri þá sló Inter Miami stigametið í bandarísku deildinni en þetta var lokaleikur deildarkeppninnar.
Miami menn enduðu með 74 stig í 34 leikjum en New England Revolution átti einmitt stigametið áður sem voru 73 stig frá árinu 2021.
Messi og félagar unnu 22 af 34 leikjum sínum og töpuðu aðeins fjórum leikjum en átta af leikjunum enduðu með jafntefli.
2️⃣ GOALS IN 3️⃣ MINUTES FOR MESSI ✨ pic.twitter.com/t8yqu8FLBP
— Inter Miami CF (@InterMiamiCF) October 19, 2024
Án Messi þá lenti Inter Miami tveimur mörkum undir á móti New England Revolution í leiknum í nótt. Mörkin komu á 2. og 34. mínútu.
Luis Suárez var hins vegar búinn að jafna metin fyrir hálfleik.
Messi kom síðan inn í hálfleik og eftir aðeins eina mínútu var hann búinn að leggja upp mark ásamt Jordi Alba en Benjamin Cremaschi skoraði það mark.
Messi skoraði síðan þrennu á aðeins ellefu mínútum frá 78. mínútu til 89. mínútu. Suárez átti stoðsendinguna í tveimur markanna og Alba í einu.
No caption needed 🔟🐐 pic.twitter.com/J0kgXx5rkA
— Inter Miami CF (@InterMiamiCF) October 20, 2024
Messi endaði deildarkeppnina með tuttugu mörk og sautján stoðsendingar í aðeins nítján leikjum. Hann missti af stórum hluta tímabilsins vegna meiðsla.
Messi varð engu að síður næstmarkahæstur í deildarkeppninni ásamt þeim Suárez og Denis Bouanga hjá Los Angeles en allir skoruðu þeir tuttugu mörk. Markahæstur var Christian Benteke hjá DC United með 23 mörk. Messi varð einnig þriðji í stoðsendingum.
Dagur Dan Þórhallsson spilaði fyrstu áttatíu mínúturnar þegar Orlando City tapaði 2-1 á heimavelli á móti Atlanta United. Orlando City endaði í fjórða sæti Austurdeildarinnar, 22 stigum á eftir toppliði Inter Miami.