Í fréttum Stöðvar 2 kom fram að virkjunin telst þó vart vera búin að fá grænt ljós. Búið er að kæra virkjunarleyfið, sem Orkustofnun gaf út í síðasta mánuði, og fleiri kærumál eru í gangi.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, tjáði fréttastofu síðdegis að þrátt fyrir kærur hygðist fyrirtækið setja undirbúning framkvæmda strax á fulla ferð með það að markmiði að þær hæfust fyrir árslok. Sagði hann þörfina svo brýna á meiri orku að það mætti ekki dragast lengur.

Í myndskeiði fréttarinnar má sjá hver sýnilegustu umhverfisáhrif virkjunarinnar verða. Neðan við bæinn Haga neðst í Þjórsárdal myndast fjögurra ferkílómetra inntakslón og flúðir í ánni fara á kaf.
Virkjunin mun hins vegar njóta allra þeirra miðlunarlóna sem þegar eru til staðar ofar á vatnasviði Þjórsár og Tungnaár á hálendinu og telst þetta lón tiltölulega lítið miðað við svona stóra vatnsaflsvirkjun.
Ef allt fer á fullt í vetur verður þessi án efa með stærstu framkvæmdum á Íslandi næstu fjögur árin, ef ekki sú stærsta, en stefnt er að gangsetningu virkjunarinnar snemma árs 2029.
Í milljörðum talið má áætla að smíðin kosti á bilinu 60 til 70 milljarða króna. Uppsett afl hennar verður 95 megavött, álíka og í Búðarhálsvirkjun og Vatnsfellsvirkjun.
Hvammsvirkjun er ætlað að framleiða um 740 gígavattsstundir raforku á ári. Söluverðmæti þeirrar orku má áætla að geti orðið á bilinu 5,5 til 6 milljarðar króna á ári. Þannig gæti þessi virkjun orðið mjög arðbær og hún borgað sig upp á kannski tíu til tólf árum.

Talsverð samgöngubót mun fylgja virkjuninni í uppsveitum Suðurlands. Á móts við þéttbýlið í Árnesi verður lagður nýr vegur vegna framkvæmdanna, Búðafossvegur, með nýrri brú yfir Þjórsá.
Vegurinn og brúin munu stytta vegalengdir um tugi kílómetra milli efstu byggða í Árnes- og Rangárvallasýslu og telja ráðamenn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að brúin muni ásamt öðru styrkja Árnes verulega sem þéttbýlisstað.
Sunnlendinga hefur lengi dreymt um að fá brúna, eins og fram kom í þessari frétt Stöðvar 2 sumarið 2009, fyrir fimmtán árum: