Settur hefur verið upp risaskjár í Yndisgarðinum við hliðina á Víkinni þar sem stuðningsmenn Breiðabliks ætla að koma saman. Svæðið verður opnað klukkan 17:00 en leikurinn hefst klukkan 18:30.
Alls geta 2.500 manns verið á Víkingsvellinum á meðan leik stendur, þar af 1.100 í stúkunni. Víkingar hafa staðið í ströngu undanfarna daga að undirbúa leikinn stóra. Þeir hafa meðal annars sett upp tvö þúsund pallettur á vellinum.
Víkingur og Breiðablik eru jöfn að stigum á toppi Bestu deildarinnar en Víkingar eru með hagstæðari markatölu og dugir því jafntefli í kvöld til að verða meistarar.
Leikur Víkings og Breiðabliks fer fram á Víkingsvelli klukkan 18:30 í dag og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 17:45. Eftir leikinn verður Besta deild karla svo gerð upp í lokaþætti Stúkunnar.