Í tilkynningu frá PCC er sagt að Horyn sé öllum hnútum kunnugur í bæði verksmiðjunni og iðnaðinum í heild eftir fimmtán ára starf í þungaiðnaði. Hann hafi verið rekstrarstjóri á Bakka undanfarin fimm ár.
Honum til fulltingis verður Andri Dan Traustason aðstoðarforstjóri. Andri mun gegna því hlutverki samhliða áframhaldandi störfum sem fjármálastjóri PCC á Bakka. Hann hefur starfað fyrir fyrirtækið frá árinu 2018.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, skipaði Gest Pétursson forstjóra Umhverfis- og orkustofnunar í september. Sú stofnun er ný og tekur við starfsemi Orkustofnunar og hluta af starfsemi Umhverfisstofnunar frá og með næsta ári.
Gestur hefur verið forstjóri PCC á Bakka frá 2022. Áður starfaði hann meðal annars sem framkvæmdastjóri Veitna, forstjóri Elkem Ísland og framkvæmdastjóri öryggis-, heilbrigðis- og umhverfismála hjá Elkem Ísland.