Íslenska ríkið telur að Læknafélag Íslands hafi boðað ólöglega til verkfalls, sem hefjast á 18. nóvember. Þetta var tilkynnt á aðalfundi Læknafélagsins sem lauk rétt fyrir fréttir. Steinunn Þórðardóttir formaður félagsins kemur í myndver og bregst við stöðunni sem upp er komin.
Íbúar í Hlíðarendahverfi í Reykjavík hafa miklar áhyggjur af umferð stórvirkra vinnuvéla um götur hverfisins. Fjöldi barna streymir inn og út úr hverfinu á hverjum degi og neyðist stundum til að ganga á götunni.
Stjórnmálaflokkar flykkjast á samfélagsmiðilinn TikTok fyrir komandi alþingiskosningar, með misgóðum árangri. Við kynnum okkur hvað skal gera, og hvað ber að forðast, á TikTok.
Reiknað er með að þúsundir leggi leið sína í miðbæ Reykjavíkur í kvöld, þegar jólabjórinn byrjar að flæða á börum borgarinnar. Við verðum í beinni frá stemningunni, sem strax er orðin ærandi.
Og í sportpakkanum kíkjum við á framkvæmdir við Laugardalsvöll, sem ganga vel og eru á áætlun. Útlit er fyrir að fyrsti leikur á nýjum velli geti farið fram snemma næsta sumar. Þetta og margt fleira í kvöldfréttum Stöðvar 2 í opinni dagskrá klukkan 18:30.