Úrslit urðu ljós á miðvikudagsmorgun en Pútín beið fram á fimmtudagskvöld til þess að tjá sig málið. Þá var hann staddur á ráðstefnu í borginni Sochi við Svartahaf þar sem sigur Trumps barst í tal. Pútín kallaði Trump afar hugaðan einstakling og lýsti aðdáun sinni á því hvernig Trump brást við þegar reynt var að ráða hann af dögum í sumar.
Pútín sagði einnig að sótt hafi verið að Trump úr öllum áttum í baráttunni og að þrátt fyrir það hafi hann farið með sigur af hólmi. Afstaða Trumps til stríðsins í Úkraínu og innrásar Rússa hefur verið harðlega gagnrýnd af mörgum, enda segist Trump ætla að stöðva átökin á örskömmum tíma, án þess að fara mjög náið út í hvernig það verði gert. Telja margir að það gæti þýtt að vesturlönd fallist á kröfur Rússa um að Úkraína láti af hendi stór landsvæði í austurhluta landsins og gefi Krímskaga alfarið upp á bátinn.
Rússlandsforseti vék að þessum ummælum í gær og sagði þau allrar athygli verð og að hann væri reiðubúinn til þess að hefja samtal við Trump um málið.