Birkir lagði líka upp jöfnunarmarkið hjá Brescia en gestirnir náðu að tryggja sér sigurinn á fimmtu mínútu í uppbótatíma.
Brescia tókst þannig að jafna metin á 90. mínútu eftir þessa frábæru innkomu íslenska miðjumannsins. Mark og stoðsending Birkis dugðu því miður ekki til þess að fá stig.
Eftir þetta tap þá er Brescia í áttunda sæti deildarinnar með sautján stig og fimm sigra í þrettán leikjum.
Það nægði ekki Birki að skora sigurmarkið eftir innkomu sína í síðasta leik því hann var aftur á varamannabekknum. Birkir skoraði eina markið í sigri á Sampdoria um síðustu helgi.
Þegar Birkir kom inn á í hálfleik í dag þá var Brescia lent 2-0 undir.
Mörk Cosenza skoruðu þeir Massimo Zilli á 34. mínútu og Simone Mazzocchi úr víti í uppbótatíma fyrri hálfleiks.
Birkir minnkaði muninn á 77. mínútu með skoti eftir að hafa fengið stoðsendingu frá Andrea Cistana. Hann lagði síðan upp mark fyrir Flavio Bianchi á 90. mínútu.