Árin 2003-2018 stunduðu þrír til fimm bátar hrefnuveiðar hér við land en árið 2018 voru einungis sex hrefnur veiddar. Síðasta hrefnan var veidd árið 2021 en það árið veiddist aðeins ein. Leyfin til veiða á hrefnu og langreyði eru hins vegar alveg aðskilin.
Þórður Bragason, annar eigenda Útgerðafélagsins Vonarinnar, sem hefur sótt um leyfi til veiða á hrefnu, hefur stundað sjómennsku í gegnum tíðina en ætlar nú í fyrsta sinn á hrefnuveiðar.
„Ég var á hvalveiðum fyrir tveimur árum á Hval 8. Ég hef eins og gengur og gerist hitt mann og annan fyrir vestan sem hafa stundað hrefnuveiðar. Það er álit þeirra að það sé orðið ógrinni af hval fyrir vestan og talsverðar breytingar á lífríkinu þar,“ segir Þórður.
Hnúfubakur ráði ríkjum inni í fjörðunum en fyrir utan þá sé ógrinni af hrefnu. Auk Vonarinnar, sem sótti um veiðileyfi í lok júlí, sóttu Tjaldtangi ehf. og Fasteignafélagið Ból ehf. um leyfi til hrefnuveiða í lok október.
Samkvæmt svörum frá matvælaráðuneytinu við fyrirspurn fréttastofu liggur ekki fyrir hvenær afgreiðslu umsókna lýkur. Þórður segist ekki hafa neinar tilfinningu fyrir því hvort leyfi verði gefin út.
„Þetta mál er einhvern vegin allt svo skrítið, tilfinningaþrungið, sem er mjög skrítið. Ég held að maður krossi bara fingur og bíður og vonar,“ segir Þórður.
„Þetta er bara veiðimennska eins og allt annað og við búums vo vel að við eigum heilt samfélag vísindamanna, sem reynir að áætla hvort stofnar séu tækir eða eigi að friða þá. Við förum bara eftir því.“