Mbl.is greindi fyrst frá. Blackbox er í eigu félaga Karls Viggós Vigfússonar og Jóns Gunnars Geirdal Ægissonar. Fréttastofa hefur ekki náð tali af eigendum í dag, en haft er eftir forsvarsmönnum að ekki liggi fyrir hvort lokunin sé tímbabundin eða varanleg. Þá segir í frétt mbl.is að reksturinn stefni í þrot, félagið hafi tapað ríflega 17 milljónum á síðasta ári.
Ljóst er að lokunin var fyrirvaralaus. Birna Dröfn Jónsdóttir fyrrverandi blaðamaður Fréttablaðsins segir frá því í Facebook-færslu að hún hafi verið búin að panta sal Blackbox með góðum fyrirvara þegar hún kom að luktum dyrum á föstudag.
„Ég mætti og skoðaði salinn á mánudeginum, við ræddum hvenær ég mætti koma og skreyta, hvernig fyrirkomulagið á veislunni væri o.s.frv. Þegar ég svo mætti á tilætluðum tíma, eftir hádegi á föstudaginn, klifjuð skreytingum, kareoke-græju, gasblöðrum, photobooth og ég veit ekki hverju og hverju var allt læst og enginn inni,“ skrifar Birna Dröfn.
Hún hafi hringt um allt og sent pósta en engin svör fengið.
„Um 14:30 náði ég loksins í mann sem tengist þessum stað, hann sagði mér að staðnum hefði verið lokað deginum áður og að ég þyrfti bara að finna annan stað...ekki einu sinni sorry...Þarna var ég því með engan stað til að halda veilsuna sem átti að byrja um fjórum tímum síðar, engan mat fyrir gestina 40 sem ég átti von á og enga drykki...þetta reddaðist auðvitað allt á endanum og úr varð sjúklega skemmtilegt jólapartý....en hefði drepið einhvern þarna á BlackBox Pizzeria að láta mig vita? Ekkert eðlilega léleg vinnubrögð að mínu mati,“ segir Birna Dröfn.
Eins og áður segir hefur ekki enn náðst í eigendur staðarins.