Skoðun

Raun­veru­leiki vændis

Drífa Snædal skrifar

Vændi er ekki vinna og ekki eðlileg viðskipti, svo ég gefi einni konu sem hefur verið í vændi orðið: „Vændi er mótsögn við kvenfrelsi og vændi er mótsögn við kynfrelsi”. Önnur segir: „Að kona þurfi að þola kynlíf með einhverjum sem hún laðast ekki að og myndi aldrei sofa hjá undir neinum öðrum kringumstæðum bara til þess að geta átt fyrir mat og húsnæði er ekkert annað en nauðgun”.

Þetta eru raddir kvenna sem hafa verið í vændi og Stígamót hafa gefið þeim rödd undanfarið á samfélagsmiðlum. Að auki höfum við tekið saman og birt á samfélagsmiðlum ummæli vændisgerenda þar sem þeir fella dóma yfir konum eftir notagildi þeirra. Já það er í alvöru til vettvangur þar sem íslenskir karlar ræða konur eins og hverja aðra hluti til sölu. Að lokum höfum við tekið saman það sem rannsóknir segja um vændi, bæði rannsóknir sem Stígamót hafa gert og rannsóknir erlendis frá.

Tilgangur þessa samfélagsmiðlaátaks Stígamóta er að koma til móts við óskir þeirra sem leita til Stígamóta vegna vændis um að tala máli þeirra og fræða almenning um kaldan raunveruleikann. Til Stígamóta koma tugir einstaklinga á hverju ári sem eru að vinna úr afleiðingum vændis og reknir eru sjálfshjálparhópar sértaklega fyrir brotaþola vændis sem við köllum Svanahópa.

Hér á landi hefur vændi verið skilgreint sem ofbeldi í lögum síðan 2009 þegar kaup voru gerð refsiverð. Samfélagslega hefur okkur hins vegar ekki orðið sérlega vel ágengt, fá mál koma til kasta lögreglunnar og þau eru svo tekin misalvarlega í kerfinu. Afar fátítt er líka að brotaþolar vændis leggi spilin á borðið gagnvart félagsráðgjöfum eða öðru fagfólki því enn er skömmin að viðurkenna vændið svo mikil og djúpstæð. Í raun eru brotaþolar vændis á svipuðum stað og brotaþolar annars kynferðisofbeldis voru fyrir þrjátíu árum síðan, báru skömm og þjáningu í hljóði og mættu skilningsvana umhverfi. Hin hliðin eru svo öfl sem telja líkama kvenna og kvára vera hluta af hinu kapítalíska kerfi þar sem allt er falt, hægt að kaupa, selja og græða eins og um hverja aðra vöru sé að ræða.

Við þurfum að viðurkenna skaðsemi vændis, fræða fagfólk og almenning um áhrifin, styðja brotaþola, búa til styðjandi umhverfi til að komast úr vændi, taka skömmina af brotaþolum, efla réttarvörslukerfið í baráttunni en fyrst og fremst og alla tíð þarf að viðurkenna það að vændi þrífst einungis þar sem eru kaupendur og þar liggur ábyrgðin. Við kaupendur segi ég; þú hefur ekki hugmynd um skaðann sem þú gætir verið að valda annarri manneskju. Ekki kaupa vændi.

Höfundur er talskona Stígamóta.

Greinin er birt í tengslum við alþjóðlegt 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×