Fótbolti

Þær norsku geta nánast fagnað eins og Ís­land gerði

Sindri Sverrisson skrifar
Caroline Graham Hansen var allt í öllu hjá Noregi í kvöld.
Caroline Graham Hansen var allt í öllu hjá Noregi í kvöld. Getty/Shauna Clinton

Á meðan að íslenska kvennalandsliðið í fótbolta er fyrir löngu búið að tryggja sér sæti á EM í Sviss næsta sumar eru mörg öflug lið að berjast í umspili um síðustu sætin á mótinu.

Komið er fram í seinni hluta umspilsins og fóru fyrri leikir fram í kvöld, í sex einvígum.

Norska landsliðið getur fagnað liða mest því það vann 4-0 útisigur gegn Norður-Írlandi og er nánast búið að tryggja sér farseðilinn til Sviss. Caroline Graham Hansen, ein besta knattspyrnukona heims, skoraði tvö marka Noregs en Tuva Hansen og Guro Bergsvand skoruðu einnig.

Þess má geta að Noregur, sem var án Maríu Þórisdóttur í kvöld, verður í riðli með Íslandi í Þjóðadeildinni á næsta ári.

Belgar eru einnig í góðri stöðu eftir 2-0 sigur gegn Úkraínu en þær belgísku eiga heimaleikinn eftir.

Pólland vann Austurríki 1-0 á heimavelli, en jafntefli varð niðurstaðan í hinum þremur einvígunum. Skotland og Finnland gerðu 0-0 jafntefli en Wales og Írland 1-1 jafntefli líkt og Portúgal og Tékkland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×