„Niðurstöður kosninganna eru langt frá því sem við Vinstri græn vonuðum. Á komandi kjörtímabili verður enginn fulltrúi VG á Alþingi sem eru sannarlega þáttaskil fyrir okkur öll sem höfum barist fyrir málefnum hreyfingarinnar af lífi og sál, mörg árum saman,“ skrifar Svandís á Facebook.
Það hafi verið einstakt að njóta þess heiðurs að sitja á Alþingi og beita sér í þágu réttlætis, jöfnuðar, kvenfrelsis og umhverfisverndar.
„Greiningar á pólitískri stöðu bíða betri tíma en á þessum tímapunkti vil ég þakka öllum þeim sem lögðu sitt af mörkum í kosningabaráttunni.“
Þótt flokkurinn verði ekki lengur á þingi muni baráttan halda áfram því gildi hans og hugsjónir lifi áfram í samfélaginu og hjá öllum þeim sem hafa þau í hávegum.
„Framundan er deigla, endursköpun og uppbygging. Þangað beinum við okkar kröftum. Takk fyrir mig.“
Vinstri græn mældust með 2,3 prósent fylgi í kosningunum. Í lögum um starfsemi stjórnmálasamtaka kemur fram að stjórnmálasamtök sem hafa fengið að minnsta kosti einn mann kjörinn á þing eða náð að lágmarki 2,5 prósent atkvæða eigi rétt til árlegra framlaga úr ríkissjóði. Þannig er ljóst að flokkurinn á ekki rétt til slíkra framlaga miðað við núgildandi lög.