Lögregluþjónar höfðu reiknað með því að hafa nóg að gera í umferðinni seinni partinn í dag en það raungerðist ekki.
Samkvæmt upplýsingum frá umferðardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur allt gengið vel fyrir sig í umferðinni. Lítið hafi verið af árekstrum og engir alvarlegir slíkir eða slys á fólki hafi ratað á borð lögreglunnar.
Svipaða sögu er að segja frá slökkviliðinu. Engin útköll hafa verið vegna umferðarinnar undir kvöld.
„Við höfum alveg sloppið,“ sagði vaktstjóri þar.
Fyrr í dag bárust fregnir af árekstrum og óhöppum á Reykjanesbrautinni. Engin fregnir bárust þó af slysum á fólki.
Sjá einnig: Ástand á Reykjanesbrautinni
Þá hafði Vegagerðin varað við erfiðum aðstæðum á Reykjanesbraut og víðar, vegna hvassviðris, éljagangs og hálku. Voru vegfarendur beðnir um að fara varlega og vera á vel útbúnum bílum.