Tíska og hönnun

Laxahattar komnir aftur í tísku hjá há­hyrningum

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Á vinstri hönd má sjá einn af háhyrningunum sem er byrjaður að synda um með lax á höfðinu. Á hægri hönd má sjá vöðu háhyrninga á veiðum.
Á vinstri hönd má sjá einn af háhyrningunum sem er byrjaður að synda um með lax á höfðinu. Á hægri hönd má sjá vöðu háhyrninga á veiðum. PWWA/Getty

Háhyrningar eru aftur byrjaðir að synda um með laxa á höfðinu tæpum fjörutíu árum eftir að laxahattar komust í tísku á níunda áratugnum.

Vísindamenn í Washington-ríki greina frá þessu í samtali við New Scientist. Sést hafi til tveggja háhyrninga með laxa á hausnum í Pudget-sundi milli Bresku-Kólumbíu og Washington-ríkis í októbermánuði. Tískudellan hefur verið kölluð „dauði laxahatturinn“ vestanhafs.

Talið er líklegt að háhyrningarnir séu ekki að nota laxinn einungis fyrir útlitið. Fiski-fylgihluturinn virðist þjóna margvíslegum tilgangi og meðal annars gera háhyrningunum kleift að fá sér snarl á meðan þeir ferðast um hafið.

Tískudella sem lifði skammt er lifnuð við á ný

Það sem er sérstaklega merkilegt við þessa laxahatta er að vísindamenn tóku fyrst eftir þeim árið 1987 þegar frumkvöðull, kvenkyns háhyrningur af vesturströndinni, tók upp á því að bera lax á hausnum. 

Á nokkrum vikum höfðu tveir aðrir háhyrningar, sem voru þekktir fyrir að vera bæði greindir og félagslyndir, tekið þátt í tískutrendinu. Á endanum var öll vaðan farin að ganga um með hatta. Hins vegar var tískudellan fljót að líða hjá og hættu laxahattarnir í tísku árið 1988.

En tískan fer í hringi og í nóvember náðist ljósmynd af 32 ára karlkyns háhyrningi sem gengur undir nafninu J27 Blackberry með lax á höfðinu skammt frá Point No Point-tanga í Pudget-sundi.

Óvenjumikið magn af laxi mögulega skýringin

Vísindamenn geta ekki fyllilega skýrt hvað veldur þessari endurvakningu laxahattsins.

„Í sannleika sagt höfum við ekki hugmynd um hvers vegna þetta byrjaði aftur og af hverju þetta gerist,“ sagði Deborah Giles, vísindakona sem leiðir vísindahópinn Wild Orca, í samtali við New Scientist.

Ein möguleg skýring sem hefur verið nefnd er að laxahattarnir séu leið háhyrninganna til að eiga við matarskort á ákveðnum svæðum hafsins. Þannig nýtist laxinn eins og nesti.

Önnur möguleg skýring er að þetta séu gáskafull viðbrögð við óvenjumiklu magni af löxum á svæðinu í ár. Ef háhyrningur er búinn að éta fylli sína af laxi gæti verið að hann vilji geyma afganginn á höfði sínu vegna þess að laxinn er of lítill og sleipur til að hægt sé að geyma hann undir uggunum.

Sjá einnig: Háhyrningurinn losaði sig við kálfshræið

Háhyrningar eru almennt taldir snjallar verur, sérstaklega þegar kemur að fæðuöflun. Þrátt fyrir það er tegundin í útrýmingarhættu. Það er því spurning hvort laxahattarnir séu áhrifaþáttur í að halda stofninum á lífi.


Tengdar fréttir

Hnýðingskálfur í fylgd með háhyrningum

Dýraverndunarsamtökin Orca Guardians Iceland, sem berjast fyrir verndun háhyrninga við Íslands strendur, birtu í gær mynd af hnýðingskálfi í för með háhyrningum. Virtist sem svo að háhyrningarnir hefðu tekið kálfinn í fóstur um stund.

Háhyrningar elska hákarlalifur

Nýsjálenskur vísindamaður segir að fullorðnir háhyrningar í mörgum háhyrningavöðum í heimshöfunum hafi lært að drepa hákarla til þess að éta úr þeim lifrina sem þeim þykir mesta lostæti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.