Lífið

40 ára kona: Er of seint að deita konur?

Aldís Þorbjörg Ólafsdóttir skrifar
Aldís Þorbjörg Ólafsdóttir er sálfræðingur frá Háskóla Íslands og para- og kynlífsráðgjafi frá Michigan Háskóla.
Aldís Þorbjörg Ólafsdóttir er sálfræðingur frá Háskóla Íslands og para- og kynlífsráðgjafi frá Michigan Háskóla.

Spurning barst frá lesenda: „Ég hef alltaf verið hrifin af konum en samt alltaf verið með karlmönnum. Eftir mörg ár ein er ég samt hrædd við að deita konur þó ég finni að ég vil alls ekki deita karlmenn. Er smá hrædd um að þær nenni ekki 40 ára nýgræðingi“ - 40 ára kona.

Það er eitt að vita hver kynhneigð þín er, hverjum þú laðast eða verður skotin í, en það er annað að taka skrefið og deita eða stofna til sambands með einstaklingi af því kyni. Það er mjög skiljanlegt að það verði heldur ekki einfaldara með árunum. En ég heyri fólk á öllum aldri lýsa þessum ótta. Það að byrja að deita eða sofa hjá öðru kyni en því sem þau hafa gert fram að þessu kallar fram allskonar óöryggi. Ekki ósvipuðu því sem kemur fram í þinni spurningu.

Fyrir þau sem laðast að fleiri en einu kyni er á margan hátt auðveldara að deita fólk af gagnstæðu kyni. Enn og aftur hugsa ég til þessa norma og þeirra handrita sem við finnum eflaust flest fyrir. Handritið segir að konur tjái kyn sitt á kvenlegan hátt, karlar á karlægan hátt og karlar eigi frumkvæði að spjalli, deiti eða kynlífi. Einnig er auðveldara að finna fyrirmyndir af gagnkynja samböndum og kynlífi.

Kynlífið með Aldísi, sálfræðingi og kynlífsráðgjafa, er nýr vikulegur liður á Vísi. Í honum fræðir Aldís lesendur um kynlíf og svarar spurningum frá lesendum. Ef þú vilt senda Aldísi spurningu er hægt að finna spurningaform neðst í greininni.

Fólk á öllum aldri hefur lýst þessum ótta. Vísir/Getty

Eftir skemmtilega önn af pistaskrifum er ég alvarlega farin að íhuga að halda áramótabrennu þar sem við komum saman og kveikjum í handritinu og normunum sem því fylgir. Ansi margar spurningar sem ég fæ snúast um það hvort ákveðin líðan, kynhegðun, fantasíur, langarnir eða þrár séu eðlilegar. Ef við myndum losa okkur við þetta ósýnilega handriti um hvernig við eigum að vera og fá meira frelsi til að vera við sjálf og njóta, verður kynlífið okkar sennilega unaðslegra!

En aftur að spurningunni! Þegar þú stígur út fyrir normið og ferð að deita konur finnur þú strax að þú hefur ekki lengur þetta handrit með þér. Hvor ykkar á frumkvæði, hvernig á stefnumótið að vera og hvernig lítur nánd og kynlíf út? Sannleikurinn er samt sá að munurinn á kynjunum er ekki þannig að við þurfum að fá nýja handbók með hverju kyni. Þess vegna hvet ég þig til þess að taka nokkur skref í þá átt að kynnast konum, því ég það er mjög sennilega fullt af konum alveg að nenna fertugum nýgræðingi! Fyrir utan það að fertugt er enginn aldur!

Það eru ýmis ráð til þess að yfirstíga óöryggið sitt.Vísir/Getty

Hér eru nokkur ráð:

  • Þú getur pantað tíma hjá ráðgjafa hjá Samtökunum ‘78. Það getur verið ómetanlegur stuðningur á meðan þú ert að taka þessi fyrstu skref.
  • Skoðaðu viðburði hjá Samtökunum ‘78! Þú finnur þá á facebook síðu samtakanna. Viðburðir á vegum samtakanna eru ansi fjölbreyttir: bókaklúbbur, prjónaklúbbur og í haust voru hittingar þar sem konur sem hafa verið að koma seint út úr skápnum voru að hittast.
  • Ögraðu þér! Eins og með allan kvíða þá viljum við oftast fresta eða forðast þær aðstæður sem við óttumst. Brjóttu þetta niður í smærri skref og byrjaðu strax í dag. Hvað er það minnsta sem þú getur gert í dag til að taka skref í þessa átt?
  • Stefnumótaöppin er góð leið til að koma þér af stað! En svo má líka heimsækja hinsegin kaffihús og skemmtistaði.
  • Til að byrja með er fínt að setja sér það markmið að kynnast öðrum konum og byggja upp vináttu. Það er þægilegra að kynnast öðrum þegar við setjum minni pressu á okkur!
  • Þegar þú ert komin á stefnumót er alltaf best að vera heiðarleg. Bæði varðandi það hvar þú ert stödd í því ferli að koma út úr skápnum og líka varðandi reynsluleysið. Það er betra að ræða hlutina en að vera með kvíðahnút í maganum á meðan þú reynir að láta það ekki sjást.
  • Leyfðu þér að vera nýgræðingur! Það er engin krafa um að þú þurfir að kunna þetta allt frá upphafi. Að vera nýgræðingur í sambandi með konu er bara staðan eins og hún er akkúrat núna, en það mun svo breytast!

Þetta er þitt ferðalag og þú mátt taka það á þínum hraða. Aldur þinn eða reynsluleysi þarf ekki að vera hindrun – öðrum konum getur jafnvel fundist einmitt þetta heillandi við þig. Leyfðu þér að vera forvitin, opin og umfram allt þolinmóð gagnvart sjálfri þér!

Gangi þér vel <3






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.