Enski boltinn

Breyta fótboltareglunum vegna Arteta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikel Arteta er farinn að hafa áhrif á reglur fótboltans án þess að ætla sér það.
Mikel Arteta er farinn að hafa áhrif á reglur fótboltans án þess að ætla sér það. Getty/Rob Newell

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal. hefur kannski haft meiri áhrif á fótboltareglurnar heldur en margan grunar. IFAB, Alþjóða fótboltaráðið, hefur nefnilega ákveðið að breyta reglum sínum vegna atviks í Evrópuleik Arsenal á dögunum.

Arteta slapp þá við rautt spjald þegar hann fór inn á völlinn og tók upp boltann. Atvikið varð í Meistaradeildarleik Arsenal og Internazionale Milan. ESPN segir frá.

Matteo Darmian, varnarmaður Internazionale, ætlaði að taka boltann sem var á leiðinni út af í innkast. Arteta tók boltann upp áður en hann var kominn út af vellinum.

Istvan Kovacs dómari ákvað að sýna Arteta gula spjaldið en samkvæmt reglunum þá átti knattspyrnustjóri Arsenal að fá þarna rautt spjald.

Fyrr á þessu ári þá fengu bæði Carlos Corberán, stjóri West Bromwich Albion, og Derek McInnes, stjóri Kilmarnock, rautt spjald við svipaðar kringumstæður.

Alþjóða fótboltaráðið, IFAB, fundaði í vikunni og ákvað að breyta reglunum. Þeim fannst rauða spjaldið of harður dómur og hér eftir verður þetta aðeins gult spjald.

Það fylgir þó sögunni að ef knattspyrnustjórinn er bara að reyna að flýta fyrir gangi leiksins þá sé það gult spjald en ef hann sé að reyna að stöðva leik mótherjans þá sé það áfram rautt spjald.

Það á þó eftir að samþykkja þessa breytingu formlega og það gerist á ársfundi IFAB 1. mars næstkomandi. Breytingin mun því ekki taka gildi fyrr en næsta sumar í fyrsta lagi.

Það verður líka gerð breyting á dómarakastinu. Ef sending er augljóslega á leiðinni út af vellinum eða til andstæðings þegar boltinn fer í dómarann þá fær mótherjinn boltann en ekki liðið sem átti sendinguna eins og það er í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×