Lífið

Taka sér hlé hvort frá öðru

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Barry Keoghan og Sabrina Carpenter saman á rauða dreglinum á Met Gala í maí.
Barry Keoghan og Sabrina Carpenter saman á rauða dreglinum á Met Gala í maí. Kevin Mazur/MG24/Getty Images

Bandaríska söngkonan Sabrina Carpenter og írski leikarinn Barry Keoghan hafa ákveðið að taka sér hlé hvort frá öðru. Þau hafa verið að stinga saman nefjum í tæpt ár.

Þetta kemur fram í umfjöllun People. Þar er haft eftir ónefndum vini þeirra að þau hafi ákveðið að kalla þetta gott en þau sáust fyrst saman á stefnumóti í desember í fyrra. „Þau eru bæði ung og að einbeita sér að sínum ferli, þannig þau hafa ákveðið að taka sér hlé frá sambandinu,“ segir vinurinn.

Ofurparið kynntist fyrst í september í fyrra í tískuviku í París þar sem þau mættu bæði á sýningu Givenchy tískuhússins. Þau hafa síðan reglulega sést saman og verið dugleg að tjá sig um hvort annað á samfélagsmiðlum og í kjötheimum. Þannig mætti Írinn á Coachella þar sem hans kona var að spila og gegndi síðar aðalhlutverki í tónlistarmyndbandi hennar við lagið Please Please Please sem kom út í júní.

Valdi Keoghan því hann sat við hliðina á henni

Carpenter hefur áður tjáð sig um veru leikarans þar og sagt að hún hafi verið að velta fyrir sér hvaða stórleikara hún gæti fengið í myndbandið. Það hafi verið einfaldast að velja Keoghan þar sem hann hafi setið við hliðina á henni þegar hún var að velta þessu fyrir sér. Hún hafi lagt þetta til og hann slegið til.

Keoghan hefur síðar hrósað henni í hástert á opinberum vettvangi. Þannig ræddi hann í hlaðvarpsþætti í nóvember að hann væri stoltur af Carpenter eftir að hún var tilnefnd til sex verðlauna. Þá sagðist hann þurfa að drífa sig í símann til að ná á hana.

„Ég veit ekki um neinn sem leggur harðar að sér. Maður er kjaftstopp þegar maður fylgist með henni vinna og þeim viðmiðum sem hún setur sér. Sérstaklega í þessu tónlistarmyndbandi, hún bara er með þessa sýn. Hún veit hvað hún vill.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.