Allir átján leikir kvöldsins hefjast á sama tíma, eða klukkan 20 á Íslandi, og verður leikur Víkings í beinni útsendingu á Vodafone Sport.
Víkingar eru sem stendur í 19. sæti af 36 liðum, með sjö stig. Sá stigafjöldi gæti dugað liðinu til vera í hópi þeirra 24 liða sem komast áfram, og hafa verið taldar yfirgnæfandi líkur á að Víkingar nái því.
Sigur kæmi Víkingi í efri flokk
Liðin sem enda í 1.-8. sæti komast beint í 16-liða úrslit (sá möguleiki er úr sögunni fyrir Víkinga) en liðin í 9.-24. sæti fara í umspil í febrúar. Ef Víkingar vinna í dag tryggja þeir sér sæti í efri styrkleikaflokki fyrir umspilið.
Umspilið
Dregið verður í umspil um sæti í 16-liða úrslitum á morgun klukkan 12. Í umspilinu eru átta einvígi þar sem spilað er heima og að heiman.
Liðin sem enda í 9.-16. sæti verða í efri styrkleikaflokki þegar dregið verður og liðin í 17.-24. sæti í neðri flokknum.
Liðunum er skipt enn frekar niður og munu liðin í 9.-10. sæti geta dregist gegn liðum í 23.-24. sæti, liðin í 11.-12. sæti gegn 21.-22. sæti, liðin í 13.-14. sæti gegn 19.-20. sæti, og liðin í 15.-16. sæti gegn 17.-18. sæti.
Úr því að Víkingar eru í 19. sæti mega þeir því í mesta lagi missa fimm lið upp fyrir sig, svo þeir komist í umspilið.
Ef þeir tapa í kvöld munu úrslit í níu öðrum leikjum ráða örlögum þeirra. Leikina níu má sjá neðar í greininni.
Hér má sjá stöðuna í deildinni en séu lið jöfn að stigum ræður markatala hvort liðanna er ofar (og svo skoruð mörk séu lið enn jöfn, og svo skoruð mörk á útivelli, og svo sigrar og útivallarsigrar):
Það sem stuðningsmenn Víkings ættu helst að vonast eftir er til að mynda að Borac og Omonia geri ekki jafntefli í kvöld, því þá komast bæði upp fyrir Víkinga ef þeir tapa, og að Celje, Hearts, Basaksehir, Astana og TSC vinni ekki sína leiki.
Hér eru leikirnir sem skipta Víkinga máli, ef Víkingur nær ekki í stig í Austurríki í kvöld:
Borac – Omonia: Annað liðið upp fyrir Víking með sigri, bæði ef jafntefli.
Molde – Boleslav: Annað liðið upp fyrir Víking en ekki bæði.
Celje – The New Saints: Celje þarf sigur til að komast upp fyrir Víking.
Hearts – Petrocub: Hearts þarf sigur til að fara upp fyrir Víking, jafntefli nóg ef Víkingur tapar með +3 marka mun.
Cercle Brugge – Basaksehir: Basaksehir þarf sigur til að fara upp fyrir Víking.
APOEL – Astana: Astana þarf sigur og að minnsta kosti þriggja marka sveiflu í markatölu (t.d. 2-3 sigur Astana og 2-0 tap Víkings), til að fara upp fyrir Víking.
Real Betis – HJK: HJK þarf sigur og að minnsta kosti fjögurra marka sveiflu í markatölu, til að fara upp fyrir Víking.
Heidenheim – St. Gallen: Gallen þarf sigur og að minnsta kosti sjö marka sveiflu í markatölu, til að fara upp fyrir Víking.
TSC – Noah: Annað liðið þarf að vinna til að komast upp fyrir Víking. TSC þarf að minnsta kosti þriggja marka sveiflu en Noah átta marka.