Fótbolti

Nýja elsta kona heims elskar fót­bolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Inah Canabarro er 116 ára gömul og byrjar árið sem elsta manneskja í heimi.
Inah Canabarro er 116 ára gömul og byrjar árið sem elsta manneskja í heimi. AP/Carlos Macedo

Brasilísk nunna er nú elsta lifandi manneskja í heimi. Nunnan heitir Systir Inah Canabarro og er 116 ára gömul.

Það er mikill fótboltaáhugi í Brasilíu eins og flestir þekkja og fótboltinn nánast eins og trúarbrögð fyrir Brasilíumenn. Elsta konan landsins og nú heimsins fylgist líka með boltanum.

Canabarro er tuttugasta elsta manneskja sögunnar og aðeins ein nunna er með skráðan hærri aldur. Það var systir Lucile Randon sem varð 118 ára.

Canabarro fæddist 8. júní árið 1908 í suðurhluta Brasilíu en hún segir lykilinn að langlífi sínu sé kaþólska trúin og að hún sé góð og vingjarnlega manneskja. Margir taka líka undir það.

Canabarro varð sú elsta í heimi eftir að japanska konan Tomiko Itooka lést 29. desember síðastliðinn. Sky segir frá.

Canabarro kom úr stórri fjölskyldu en gerðist nunna á táningsaldri. Hún varð heiðruð sérstaklega af Francis páfa á 110 ára afmæli sínu.

Það fylgir líka sögunni að nýja elsta kona heims elskar fótbolta. Uppáhaldsfélagið hennar heitir Inter og heldur meðal annars upp á afmæli hennar á hverju ári með köku og blöðrum í litum félagsins.

Hún var orðin fimmtug þegar Pele og félagar urðu heimsmeistarar í fyrsta sinn árið 1958 og 94 ára gömul þegar Brasilíumenn urðu síðast heimsmeistarar árið 2002. Hvort hún lifi sjötta heimsmeistaratitil þjóðar sinnar verður að koma í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×