Frá þessu segir á vef Veðurstofunnar. Þar kemur fram að vindhraði nái sér þó ekki á strik. Seinnipartinn verður miðjan komin að austurströndinni og fer þá að anda af norðri og það ætti að létta til á sunnanverðu landinu. Spáð er frosti á bilinu eitt til tíu stig, mest inn til landsins.
Í stuttu máli megi því segja að það verði kalt og tiltölulega rólegt í dag og á morgun en síðan órólegar umhleypingar út vikuna.
„Á morgun fer hæðarhryggur yfir landið. Þá er útlit fyrir bjart veður víðast hvar og herðir heldur á frostinu.
Á fimmtudag gengur síðan í suðaustan hvassviðri eða storm með rigningu eða slyddu nærri sjávarmáli, annars snjókoma. Hægari vindur og þurrt á Norður- og Austurlandi þangað til síðdegis og hlýnar smám saman á þeim slóðum.
Seinnipartinn á föstudag er síðan von á sunnan stormi með meira afgerandi hlýindum og rigningu og súld á sunnan- og vestanverðu landinu,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á miðvikudag: Breytileg átt 3-8 m/s. Bjart með köflum og yfirleitt úrkomulaust. Frost 3 til 15 stig, kaldast í innsveitum. Vaxandi sunnanátt við vesturströndina um kvöldið með stöku éljum.
Á fimmtudag: Suðaustan 15-23 með rigningu eða slyddu nærri sjávarmáli, annars snjókoma. Hiti 0 til 6 stig. Hægari vindur og þurrt á Norður- og Austurlandi þangað til síðdegis og hlýnar smám saman á þeim slóðum. Snýst í suðvestan 8-15 á vestanverðu landinu undir kvöld með éljum og kólnar.
Á föstudag: Vaxandi sunnan- og suðaustanátt, stormur seinnipartinn með rigningu og súld á sunnan- og vestanverðu landinu. Hlýnandi veður.
Á laugardag: Sunnan stormur framan af degi og rigning, talsverð eða mikil á sunnanverðu landinu. Hiti 5 til 13 stig, hlýjast norðaustanlands. Lægir síðdegis, slydda á köflum og kólnandi veður.
Á sunnudag: Austlæg og síðar suðlæg átt með slyddu eða snjókomu, en fer yfir í rigningu sunnan- og austanlands og hlýnar.
Á mánudag: Snýst í vestanátt með snjókomu eða éljum, en rofar til á austanverðu landinu. Hiti kringum frostmark.