Í næstu viku hefjast samningafundir þar sem freist verður að ná samkomulagi um áframhaldandi vopnahlé eða jafnvel varanlegu. Ásamt því að gíslarnir ísraelsku sem hafa verið í haldi Hamas frá innrásinni sjöunda október 2023 verði látnir lausir.
Heilbrigðisyfirvöld á Gasasvæðinu hafa einnig tilkynnt um að landamærastöð Palestínu og Egyptalands í borginni Rafa verði opnuð á nýjan leik sem gerir mörgum þúsund særðra Palestínumanna kleift að sækja sér lífsbjörg á sjúkrahúsum Egyptalandsmegin.
Fagna heimkomu ástvina
Í morgun var gíslunum Yarden Bibas og hinum fransk-ísraelska Ofer Kalderon sleppt úr haldi og tóku starfsmenn Rauða krossins á móti þeim í Khan Younis. Seinna í dag var svo hinum bandarísk-ísraelska Keith Siegel sleppt í Gasaborg.

Fjölskylda hins fransk-ísraelska Ofer Kalderon fagnaði honum innilega þegar hún tók á móti honum á ísraelskri herstöð í Khan Younis-borg.
„Í dag föðmum við loksins Ofer og sjáum og skiljum að hann er hér með okkur. Við berum því vitni hvernig hann lifði þetta helvíti af af ótrúlegri þrautseigju. Ofer þurfti að þola fleiri mánuði af martröð og við erum stolt af því að hann skuli hafa lifað af og haldið í vonina um að fá að faðma börnin sín aftur,“ er haft eftir fjölskyldu Ofers.
Á annað hundrað palestínskra fanga látnir lausir
Ofer Kalderon var tekinn fanga í Nir Oz-kibbútsnum sjöunda október 2023 þegar Hamasliðar réðust inn í ísraelskar byggðir við landamæri Gasasvæðisins. Ásamt honum var Sahar, dóttir hans, og Erez, sonur hans, tekin í gíslingu en þeim var sleppt í nóvember þess árs þegar samið var um tímabundið vopnahlé.

Ísraelar hafa nú hafið ferlið að láta 183 palestínska fanga lausa. 32 föngum sem voru í haldi í herfangelsinu í Ofer var ekið til Vesturbakkans í dag og aðrir 150 verða sendir til Gasasvæðisins eða úr landi. Samkvæmt palestínskum yfirvöldum voru 111 af þessum 183 manna hópi sem á að sleppa úr haldi handteknir á Gasasvæðinu í kjölfar árásanna sjöunda október og hefur verið haldið fanga án dóms eða réttarhalda.