Arsenal vann öruggan 5-1 sigur á City á Emirates-vellinum í Lundúnum í gær. Haaland yngri jafnaði leikinn fyrir City í síðari hálfleik áður en Arsenal skoraði fjögur mörk.
Töluverð áfergja einkenndi leikinn og skot á milli manna. Enda andað köldu milli liðanna síðustu misseri.
Upp úr sauð þegar liðin áttust við fyrr á leiktíðinni en þá jafnaði Manchester City seint í uppbótartíma. Í kjölfarið kom til orðaskaks og handalögmála milli leikmanna liðanna og frægt að Erling Haaland sagði Mikel Arteta, þjálfara Arsenal, að halda sig á mottunni og sýna auðmýkt (e. be humble).
Arsenal svaraði í gær en lag Kendricks Lamar, Humble, hljómaði í hljóðkerfinu eftir lokaflautið, sem var augljóslega vísun í móðgun Haalands nokkrum mánuðum fyrr.
Leikmenn Arsenal fögnuðu vel í leikslok en þau fagnaðarlæti fóru eitthvað illa í Haaland eldri. Hann birti mynd af fögnuði Arsenal á samfélagsmiðlinum X eftir leik í gær og skrifaði við, hæðnislega: „Þetta lið sem vinnur allt. Ehhhh, not.“
«This Team» that wins everything. Ehhhhh, not. 🩵 https://t.co/B81Ais3J6a
— Alfie Haaland (@alfiehaaland) February 2, 2025
Haaland sendir þar með keimlík skilaboð og sonur hans gerði fyrir nokkrum mánuðum síðan og bendir á að Arsenal hafi, þrátt fyrir góðan árangur síðustu misseri, ekki unnið neitt af viti. Arsenal hefur unnið FA-bikarinn einu sinni, árið 2020, og Samfélagsskjöldinn 2020 og 2023 í tæplega sex ára stjóratíð Mikels Arteta.
Á sama tíma hefur Manchester City unnið fjóra Englandsmeistaratitla í röð, auk þess að vinna enska bikarinn, Samfélagsskjöldinn, Meistaradeildina, Ofurbikar Evrópu og Heimsmeistarakeppni félagsliða á árunum sex.
Manchester City hefur hins vegar verið í sögulegri lægð á yfirstandandi tímabili. Liðið er með 41 stig í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar og tapað sjö leikjum af 24. City komst þá naumlega áfram í Meistaradeild Evrópu með 2-1 sigri á Club Brugge í lokaumferð deildarkeppninnar.