Í nýlegri grein á Fastcompany er hins vegar vitnað í rannsókn sem dró saman fjögur atriði sem sögð eru vera rauðu flöggin þegar kemur að stjórnendum. En þeim er ætlað að hjálpa fólki til að átta sig á því hvort yfirmaðurinn þeirra er mögulega einn þeirra sem varað er við. Og fólk frekar hvatt til að halda sig frá.
Fyrsta rauða flaggið er stjórnandi sem reynir að fela sína eigin veikleika. Jafnvel þegar hann/hún gerir mistök. Þessi stjórnandi leggur hins vegar mikla áherslu á að virðast vera frábær stjórnandi. Svona ímyndarlega séð. Starfsfólkið sem heyrir undir viðkomandi, veit þó oft betur.
Annað rautt flagg er stjórnandi sem hefur engan áhuga á þér né þínu lífi né hvernig þér gengur eða þú hefur það. Og veit eiginlega ekki neitt um þig. Stjórnandi sem hefur engan áhuga á starfsfólkinu sínu, er ekki líklegur til að geta verið til staðar eða stutt sitt fólk þegar á reynir.
Þriðja rauða flaggið er stjórnandinn sem virðir að vettugi allt sem heitir aðskilnaður einkalífs og vinnu. Dritar til dæmis tölvupóstum til starfsfólks hvenær sem er. Jafnvel þegar þeir sjálfir eiga að vera í fríi.
Fjórða rauða flaggið er síðan það að viðkomandi hefur alltaf rétt fyrir sér. Þið þekkið þennan karakter; Það er einfaldlega bara ein rétt leið að fara og ein lausn á hverju máli og það er alltaf sú leið eða lausn sem stjórnandinn leggur til. Því hann/hún er einfaldlega klárari en aðrir. Sem auðvitað er kolrangt.