Samningafundum í kjaradeilu Félags framhaldsskólakennara og SÍS lauk um klukkan 16 eftir að hafa staðið síðan klukkan 11 í morgun. Guðjón Hreinn ræddi við fréttamann að fundi loknum en gaf lítið upp um gang viðræðna.
„Við erum að kasta á milli okkar hlutum og reyna að lenda,“ segir hann.
Hafa ekki rætt launatöflur
Launatöflur hafi ekki verið ræddar á fundinum í dag en krafa FF sé jöfnun kjara milli almenns markaðar og hins opinbera, líkt og kröfur annarra félaga innan KÍ.
Þá segist hann ekkert geta sagt til um hversu lengi sé búist við að samræðurnar taki að þessu sinni. „Við ætlum bara að einbeita okkur að vinnunni. Við vonumst til þess að getum náð þessu saman. Við erum ekkert í neinum slíkum hugmyndum, það er dagur fyrir dag núna.“
Verði ekki samið um nýjan kjarasamning fyrir 21. febrúar hefst verkfall í fimm framhaldsskólum. Það eru Menntaskólinn á Akureyri, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Borgarholtsskóli, Verkmenntaskóli Austurlands og Fjölbrautaskóli Snæfellinga.
Dómur Félagsdóms hafi engin áhrif
Þá segir Guðjón Hreinn að dómur Félagsdóms á dögunum hafi engin áhrif á fyrirhuguð verkföll. Félagsdómur féllst þá á með SÍS að boðuð verkföll í aðeins litlum hluta leik- og grunnskóla væru ólögmæt.
„Þetta snýst um hugtakið vinnustað, eða vinnuveitanda öllu heldur. Það er ljóst að hver framhaldsskóli er sérstök ríkisstofnun og er þar með skýr vinnuveitandi. Þannig að það hefur ekki áhrif á framhaldsskóladeiluna,“ segir Guðjón Hreinn.