Hópurinn kallast á ensku „Department of Special Tasks“ eða „Séraðgerðasveitin“ og notast vestrænir embættismenn við skammstöfunina SSD. Hún var stofnuð árið 2023 og mun vera skipuð útsendurum sem komið hafa að víðfrægum aðgerðum Rússa í Evrópu á undanförnum árum.
Í frétt Wall Street Journal, þar sem kafað er ofan í saumana á SSD, segir að sveitin sé mynduð útsendurum úr ýmsum leyniþjónustum Rússlands. Þá hafi SSD tekið yfir fræga deild sem nefnist „sveit 29155“ en meðlimir hennar komu meðal annars að því að eitra fyrir njósnaranum Sergei Skripal og dóttur hans í Englandi árið 2018.
Telja sig í átökum við Vesturlönd
Vestrænir embættismenn sögðu í samtali við blaðamenn WSJ að ráðamenn í Rússlandi telji Vesturlönd bera sameiginlega ábyrgð á árásum Úkraínumanna í Rússlandi, eins og banatilræðum og dróna- og eldflaugaárásum, auk skemmdarverkinu á Nord Stream gasleiðslunni.
Rússar eru sagðir telja sig eiga í átökum við Vesturlönd. Þess vegna séu þeir að stofna nýjar herdeildir og hóta notkun kjarnorkuvopna.
Sveitin er talin hafa spilað stóra rullu í því að reyna að koma sérhönnuðum og vel dulbúnum eldsprengjum um borð í flugvélar DHL. Sprengjurnar munu hafa átt að berast til Bandaríkjanna.
Séraðgerðasveitin hefur þrjú meginverkefni. Þau eru að fremja skemmdarverk og banatilræði á erlendri grundu. Að koma útsendurum fyrir í vestrænum fyrirtækjum og háskólum og að fá fólk til að njósna fyrir Rússa og þjálfa það.
Meðal annars er sveitin sögð hafa reynt að laða að útsendara frá Úkraínu, þróunarríkjum og öðrum ríkjum eins og Serbíu, sem álitin eru vinsamleg af ráðamönnum á Vesturlöndum.
Þar að auki er sveitin sögð stýra sérstakri deild þar sem margar sérsveitum rússneska heraflans fá þjálfun.
Séraðgerðasveitin er sögð beina sjónum sínum sérstaklega að Þýskalandi, sökum þess að ráðamenn í Rússlandi telja ríkið veikan hlekk innan Atlantshafsbandalagsins. Er það vegna þess hve mikið Þjóðverjar hafa reitt sig á orkuinnflutning frá Rússlandi og jákvæðra sjónarmiða til Rússlands meðal stjórnmálamanna og almennings.

Leidd af reynslumiklum mönnum
SSD er leidd af tveimur mönnum. Andrey Vladimirovich Averyanov er æðstur og undir honum er Ivan Sergeevich Kasianenko. Averyanov barðist í Téténíu á árum áður og er eftirlýstur í Tékklandi fyrir meinta þátttöku hans í sprengjuárás í vopnageymslu þar í landið árið 2014. Sú árás mun hafa verið framin af Sveit 29155.
Sjá einnig: Lýsa eftir sömu Rússum sem sakaðir voru um Skripal-árásina
Averyanov hefur einnig hlotið æðsta heiður Rússlands, sem Vladimír Pútín, forseti, veitti honum fyrir aðkomu hans að ólöglegu hernámi og innlimun Krímskaga af Úkraínu.
Kasianenko, sem sagður er hafa starfað um árabil hjá GRU, er talinn hafa skipulagt banatilræðið gegn Skripal.
Hann mun nú halda utan um aðgerðir sveitarinnar í Evrópu og yfirtöku GRU á aðgerðum Wagner Group í Afríku, eftir að Yevgeny Prigozhin, eigandi málaliðahópsins dó árið 2023.
Rannsóknarmiðillinn Insider sagði frá því í janúar að Kasianenko hefði sömuleiðis komið að því að fjármagna vígahópa í Afganistan og siga þeim á bandaríska hermenn og bandamenn þeirra.
Samkvæmt heimildarmönnum WSJ bæði á Vesturlöndum og í Rússlandi heyrir Séraðgerðasveitin undir Pútín en leiðtogum hennar er ekki skylt að leita til hans eftir samþykki á aðgerðum þeirra.
Ákærðu meðlimi sveitarinnar
Evrópusambandið beitti refsiaðgerðum gegn Séraðgerðasveitinni í desember, vegna árása og skemmdarverka í Evrópu og víðar, og dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna ákærði nokkra meðlimi sveitarinnar. Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hefur heitið tíu milljónum dala fyrir upplýsingar um fimm meðlimi sveitarinnar sem sakaðir hafa verið um tölvuárásir í Úkraínu.
Meðal ráðamanna á Vesturlöndum hefur verið kallað eftir frekari hertum aðgerðum vegna árása Rússa og auknum viðbúnaði. Einn heimildarmaður WSJ innan NATO sagði að Vesturlönd þyrftu að líta svo á að þau væru í raun í stríði. Það væri hættulegt að gera það ekki.