Körfubolti

Fékk fjór­tán milljónir fyrir einn þrist

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Shaquille O'Neal og Kenny Smith fögnuðu með Jaren Barajas eftir að hann sigraði Damian Lillard í skotkeppni.
Shaquille O'Neal og Kenny Smith fögnuðu með Jaren Barajas eftir að hann sigraði Damian Lillard í skotkeppni. getty/Thearon W. Henderson

Heppinn áhorfandi á Stjörnuleiknum í NBA fékk rúmlega fjórtán milljónir íslenskra króna fyrir að vinna Damian Lillard í skotkeppni.

Stjörnuleikurinn í NBA fór fram í Chase Center, heimavelli Golden State Warriors, í nótt. Leikurinn var með nýju sniði en fjögur lið öttu þar kappi; lið sem sjónvarpsmennirnir og fyrrverandi leikmennirnir Shaquille O'Neal, Kenny Smith, og Charles Barkley völdu og svo úrvalslið nýliða í deildinni.

Liðið hans Shaq bar sigur úr býtum en það vann liðið hans Barkley í úrslitaleiknum, 42-35. Stephen Curry skoraði tólf stig og var valinn bestur á sínum heimavelli.

Fleiri fóru glaðir út úr Chase Center í gær, þar á meðal átján ára háskólanemi að nafni Jaren Barajas. Hann mætti Lillard, leikmanni Milwaukee Bucks, í skotkeppni. Hann þurfti að hitta úr einu þriggja stiga skoti frá NBA-merkinu (milli teigsins og miðjunnar) áður en Lillard hitti úr þremur til að vinna hundrað þúsund Bandaríkjadollara.

Lillard hitti úr tveimur skotum áður en Jaren negldi einu niður, spjaldið og ofan í, í þann mund sem klukkan rann út. Hann fór því hundrað þúsund Bandaríkjadölum ríkari frá Stjörnuleiknum. Það samsvarar rúmlega fjórtán milljónum íslenskra króna.

„Þetta skiptir öllu máli fyrir mig. Þetta hjálpar fjölskyldu minni og framtíð minni mikið. Vonandi borgar þetta námið mitt,“ sagði Jaren eftir skotkeppnina.

Jaren bjóst ekki við að fara á Stjörnuleikinn en pabbi hans Jarens keypti miða á laugardaginn. Hann var svo óvænt beðinn um að taka þátt í skotkeppninni. Hann nýtti spjaldið þegar allt var undir, eins og pabbi hans hafði kennt honum.

„Tíminn var að renna út. Það voru þrjátíu sekúndur eftir og pabbi segir mér alltaf að nota spjaldið. Og ég gerði það. Ég vann Damian Lillard,“ sagði Jaren.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×