Enski boltinn

Segir að Amorim þurfi 2-3 félagaskiptaglugga til að laga hópinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ruben Amorim hefur ekki tekist að snúa gengi Manchester United við eftir að hann tók við liðinu.
Ruben Amorim hefur ekki tekist að snúa gengi Manchester United við eftir að hann tók við liðinu. getty/Joe Prior

Manchester United hefur aðeins unnið fjóra af fjórtán deildarleikjum undir stjórn Rubens Amorim og Gary Neville, fyrrverandi leikmaður liðsins, segir að stuðningsmenn Rauðu djöflana gætu þurft að sýna þolinmæði.

United tapaði 1-0 fyrir Tottenham á sunnudaginn og er í 15. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Gengi United hefur ekki lagast eftir að Amorim tók við af Erik ten Tag, heldur versnað, og Neville segir að stór hluti leikmannahóp liðsins henti ekki leikkerfi Portúgalans. Og það muni taka tíma að laga það.

„Hversu fljótt getur Amorim fengið ekki bara góða leikmenn heldur leikmenn sem passa inn í þetta kerfi,“ sagði Neville en Amorim kýs að nota leikkerfið 3-4-3.

„Þetta er sérstakt kerfi, 3-4-3. Þú þarft að finna tvo miðjumenn sem geta spilað saman og eru með mikla yfirferð. Þú þarft þrjá miðverði og þeir tveir ytri þurfa að geta spilað í bakvarðastöðunum þegar kantbakverðirnir fara fram. Þú þarft sérhæfða leikmenn í liðið. Þetta er ekki eins og önnur kerfi,“ sagði Neville og bætti við að Amorim þyrfti að lágmarki 2-3 félagaskiptaglugga til að finna réttu mennina fyrir kerfið sitt.

Neville segir að fjárhagsstaða United flæki málin en félagið hefur tapað miklum fjármunum á síðustu árum og Sir Jim Ratcliffe, sem á fjórðungshlut í félaginu, hefur ráðist í nokkuð grimman niðurskurð hjá því.

United hefur einungis fengið fjórtán stig í fyrstu fjórtán deildarleikjunum undir stjórn Amorims en er komið áfram í átta liða úrslit ensku bikarkeppninnar og í sextán liða úrslit Evrópudeildarinnar.

Næsti leikur United er gegn Everton á Goodison Park á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×