Viljayfirlýsingin var undirrituð af sveitarfélaginu Ölfusi, Carbfix, hafnarsjóði Þorlákshafnar, Veitum og Coda Terminal. Hún felur í sér samstarf um uppbyggingu og rekstur athafnasvæðis fyrir móttöku og förgun á koltvísýringi undir merkjum Coda Terminal. Carbfix stefnir einnig á að reisa slíkar stöðvar í Hafnarfirði og á Bakka.
Kolefnisförgun Coda Terminal á að fara fram með aðferð sem Carbfix þróaði við Hellisheiðarvirkjun í Ölfusi. Koltvísýringur er leystur upp í vatni og því síðan dælt niður í berglög þar sem það binst varanlega í steindir. Ungt basískt gosberg líkt og það sem er að finna í Ölfusi er sagt sérstaklega hagfellt fyrir tæknina í tilkynningu frá Carbfix um viljayfirlýsinguna.
Viðræður eru nú sagðar eiga að fara af stað með það að markmiði að kanna möguleikann á að ráðast í þær aðgerðir sem talin sé þörf á til að undirbúa uppbyggingu Coda-stöðvar. Fram hefur komið að móttökustöð fyrir erlend flutningaskip sem kæmu með koltvísýring til förgunar gæti verið í Þorlákshöfn. Niðurdælingarholur gætu verið nánast hvar sem er utan vatnsverndarsvæða.
Skipulagsstofnun skilaði áliti sínu á umhverfismatsskýrslu um fyrirhugaða Coda-stöð í Straumsvík í Hafnarfirði í síðustu viku. Hún lagði til sautján skilyrði fyrir framkvæmdum þar en þau vörðuðu flest vöktun og eftirlit með áhrifum starfseminnar, þar á meðal á sérstakar sjávarfallatjarnir við Straumsvík, skjálftavirkni og grunnvatnsborð.
Ekki var talið líklegt að niðurdæling á koltvísýring ylli jarðskjálftavirkni eða hefði áhrif á vatnsból sem var á meðal helstu aðfinnsluefna andstæðinga verkefnisins í Hafnarfirði.