Enski boltinn

„Þú ert að tengja þetta við Rashford“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ruben Amorim hyggst ræða við Alejandro Garnacho.
Ruben Amorim hyggst ræða við Alejandro Garnacho. ap/Peter Byrne

Ruben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, ætlar að ræða við Alejandro Garnacho um viðbrögð hans við því að vera skipt af velli í leiknum gegn Ipswich Town í ensku úrvalsdeildinni í gær.

United vann 3-2 sigur á nýliðum Ipswich þrátt fyrir að vera manni færri allan seinni hálfleikinn. Danski vinstri bakvörðurinn Patrick Dorgu fékk rautt spjald fyrir brot á Omari Hutchinson á 43. mínútu.

Í kjölfarið tók Amorim Garnacho af velli og setti varnarmanninn Noussair Mazraoui inn á. Garnacho fór beint til búningsherbergja en hann virtist vilja fara úr treyjunni sinni þar sem það rigndi hressilega í Manchester í gær.

„Ég ætla að tala við Garnacho um þetta,“ sagði Amorim eftir leikinn á Old Trafford.

Amorim valdi Garnacho ekki í leikmannahóp United fyrir leikinn gegn Manchester City í desember. Sömu sögu var að segja af Marcus Rashford sem hefur nú verið lánaður til Aston Villa. Garnacho er hins vegar áfram hjá United.

„Þú ert að tengja þetta við við Rashford,“ sagði Amorim við blaðamenn eftir leikinn í gær. „Það var kalt og blautt.“

Amorim segir að ákvörðunin að taka Garnacho hafi verið taktísks eðlis, svo hann gæti verið áfram með fimm varnarmenn inni á vellinum.

„Hugsunin var að við myndum spila 5-3-1. Það var áhætta því Garnacho er sá sem getur ógnað maður gegn manni með hraða sínum. Við þurftum að taka einhvern út af. Þetta var mín ákvörðun,“ sagði Amorim.

United er í 14. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 33 stig eftir 27 leiki. Næsti leikur liðsins er gegn Fulham í átta liða úrslitum ensku bikarkeppninnar á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×