Innlent

Sigu um borð og tóku yfir stjórn ís­lensks skips

Árni Sæberg skrifar
Stýrimennirnir sigu úr þyrlunni og um borð í skipið. Á þessari mynd er sennilega verið að hífa mennina upp í þyrluna.
Stýrimennirnir sigu úr þyrlunni og um borð í skipið. Á þessari mynd er sennilega verið að hífa mennina upp í þyrluna. Vísir/Vilhelm

Tveir stýrimenn Landhelgisgæslu Íslands sigu í gær úr þyrlu Landhelgisgæslunnar um borð í íslenskt skip norður af landi og tóku yfir stjórn þess.

Í tilkynningu Landhelgisgæslunnar á Facebook segir að varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hafi orðið þess áskynja við hefðbundna vöktun í gærmorgun að íslenskt skip væri á siglingu norðan við landið án þess að vera með gilt haffærnisskírteini auk þess sem grunur léki á að lögskráning skipstjórans um borð væri ekki fullnægjandi. Landhelgisgæslan hafi því óskað eftir því að skipið sneri aftur til upphaflegrar hafnar. Þeir sem voru um borð hafi hafnað því og ekki viljað fylgja fyrirmælum Landhelgisgæslunnar.

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar hafi því verið kölluð út til að flytja tvo stýrimenn um borð í skipið. 

„Þegar komið var að skipinu sigu stýrimennirnir tveir um borð og tilkynntu áhöfninni að þeir væru þangað komnir til að fylgja skipinu til hafnar. Þegar í land var komið tók lögregla á móti áhöfninni og tók af henni skýrslu en rannsókn málsins er í höndum lögreglunnar á Norðurlandi eystra.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×