Íslenski boltinn

„Rjóminn á kökuna fyrir okkur“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Ingimar Elí er spenntur fyrir komandi tímum upp á Skaga.
Ingimar Elí er spenntur fyrir komandi tímum upp á Skaga.

Ný aðstaða fyrir knattspyrnudeild Skagamanna mun gjörbreyta landslaginu fyrir félagið.

Eins og greint var frá í vikunni munu Skagamenn taka nýtt íþróttahús í notkun næsta haust. Þar mun karlalið ÍA leiki í Bónus-deild karla. En undir nýjum íþróttasal verður fullbúinn lyftingarsalur og nýir búningsklefar fyrir íþróttalið félagsins. Það verður því mikil breyting á aðstöðu fyrir knattspyrnulið ÍA.

Síðustu ár hefur aðstaðan fyrir knattspyrnuna verið þröng og löngu sprungin.

„Við erum ekkert smá spennt að fá þetta afhent um miðjan eða lok mars,“ segir Ingimar Elí Hlynsson, framkvæmdarstjóri knattspyrnufélags ÍA, um þá tíma sem framundan eru fyrir Skagamenn.

„Báðir meistaraflokkarnir okkar fá glænýja klefa, nýja líkamsræktaraðstöðu, heitt og kalt fyrir alla og þetta er það sem okkur hefur vantað undanfarin ár. Þetta er svona rjóminn á kökuna fyrir okkur, að fá þetta inn í notkun.“

Hann segir að aðstaðan hafi verið of þröng í allt of mörg ár.

„Við erum núna með meistaraflokk karla úti á Spáni í æfingaferð og þeir eru ekkert smá spenntir að koma heim í nýja aðstöðu.“

Rætt var við Ingimar í Sportpakkanum á Stöð 2 í gær og má sjá viðtalið hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×