Njarðvíkurkonur unnu þá tíu stiga sigur á heimakonum í Vals, 90-80, eftir að hafa verið fjórum stigum yfir í hálfleik, 53-49.
Njarðvíkurliðið er búið að vinna átta deildarleiki í röð og er auk þess komið í undanúrslit bikarsins.
Liðið hefur unnið alla sex deildarleiki sína síðan að Paulina Hersler mætti í Njarðvíkina.
Brittany Dinkins átti ótrúlegan leik í kvöld. Hún var komin með 24 stig í hálfleik og endaði með 42 stig, 9 fráköst og 7 stoðsendingar.
Emilie Sofie Hesseldal var með tvennu (14 stig og 15 fráköst) en umrædd Paulina Hersler lét sér nægja að skora 12 stig. Hin unga Sara Björk Logadóttir var í byrjunarliðinu og skoraði 9 stig.
Jiselle Thomas skoraði 28 stig fyrir Val og Alyssa Cerino var með 17 stig. Fyrirliðinn Dagbjört Dögg Karlsdóttir var síðan með 13 stig.