Upp­gjörið: Njarð­vík - Tinda­stóll 101-90 | Sjö­tti heimasigur Njarðvíkinga í röð

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Njarðvíkingar voru frábærir í kvöld og ætla heldur betur að bíta frá sér í úrslitakeppninni í ár.
Njarðvíkingar voru frábærir í kvöld og ætla heldur betur að bíta frá sér í úrslitakeppninni í ár. Vísir/Diego

Njarðvíkingar sýndu styrk sinn í kvöld með því að vinna ellefu stiga sigur á deildarmeistaraefnunum í Tindastól, 101-90, í Bónus deild karla í körfubolta í Njarðvík. Þetta var sjötti heimasigur Njarðvíkinga í röð en Stólarnr töpuðu aftur á móti öðrum útileik sinum í röð.

Stólarnir gætu núna dottið niður í annað sætið vinni Stjörnumenn sinn leik á morgun.

Það voru Njarðvíkingar sem byrjuðu leikinn með miklum krafti og komust fyrstir á blað í kvöld. Það var mikill kraftur í heimamönnum sem náðu mest tíu stiga forskoti í leikhlutanum og leiddu eftir fyrsta leikhluta 29-22.

Annar leikhluti byrjaði þá einnig af krafti en Adomas Drungilas átti hörku blokk á Evans Ganapamo sem reyndi að koma að skoti. Þetta var ákveðin fyrirboði fyrir það sem koma skyldi í þessum leikhluta frá Tindastól. Þeir mættu grimmir inn í annan leikhluta og náðu að vinna sig frábærlega inn í leikinn eftir erfiða byrjun.

Tindastóll náði að komast yfir um miðbik leikhlutans en Njarðvíkingar létu það þó ekki slá sig út af laginu. Það var mikil barátta milli liðana og algjörlega stál í stál. Það var þó Njarðvík sem náði að taka skrefið framar fyrir hálfleik og þeir leiddu í hlé 49-46.

Það var áfram mikil barátta sem einkenndi leikinn í þriðja leikhluta. Liðin skiptust á áhlaupum. Njarðvíkingar fengu færi á að fara langt með leikinn á kafla en voru sjálfum sér verstir. Tindastóll nýtti sér það vel að Njarðvík náðu ekki að gera sér meiri mat út sínu áhlaupi og enduðu leikhlutann virkileg sterkt og skoruðu síðustu átta stigin til að koma þessu í 68-65.

Tindastóll jafnaði leikinn strax í upphafi fjórða leikhluta en eftir það voru það heimamenn í Njarðvík sem tóku öll völd og náðu að stýra leiknum þægilega í höfn. Njarðvíkingar fóru gríðarlega sterkan ellefu stiga sigur 101-90.

Atvik leiksins

Dominykas Milka rífur boltann af Dimitrios Agravanis og hendir í Superman pósuna meðan Dwayne Lautier-Ogunleye keyrir upp völlinn og setur tvö stig á töfluna fyrir Njarðvík í fjórða leikhluta. Þarna var leikurinn bókstaflega rifinn af Tindastól.

Stjörnur og skúrkar

Dominykas Milka var frábær í liði Njarðvíkinga í kvöld. Var stigahæstur með 26 stig og áttu gestirnir oft á tíðum í miklum vandræðum með hann.

Hjá Tindastól vantaði einhvern til að stíga upp þegar mest á reyndi og taka yfir leikinn. Erfitt að taka einhvern einn fyrir hvort sem það sé sem skúrkur eða einhver stjarna.

Dómararnir

Það eru skiptar skoðanir með þeirra verk í kvöld. Bæði lið reyndu að malda í móinn við sumum köllum. Línan var á tíðum svolítið óskýr en þeirra frammistaða hafði ekki úrslitaáhrif.

Stemingin og umgjörð

Umgjörðin hérna í Njarðvík er til fyrirmyndar. Upphitun fyrir úrslitakeppnina og margir sem lögðu leið sína á völlinn frá báðum liðum. Ánægjulegt að sjá hvað það voru margir frá gestunum hér í kvöld. Skagafjörðurinn er farinn að finna lyktina af úrslitakeppninni og það veitir yfirleitt á frábæra stemningu þá sér í lagi þegar vel gengur.

Viðtöl

Benedikt Guðmundsson er þjálfari TindastólsVísir/Anton Brink

„Pínu brugðið hvað við vorum að taka vondar ákvarðanir í sókninni“

„Svekktur náttúrulega, markmiðið var að vinna þennan leik. Við fáum engin stig en ég er mest svekktur með frammistöðuna. Bæði varnarleikinn og sóknarleikinn,“ Sagði Benedikt Guðmundsson þjálfari Tindastóls eftir leikinn í kvöld.

„Sókarleikurinn hefur oftast verið í lagi hjá okkur en við höfum verið mjög óstöðugir varnarlega og þá sérstaklega á útivelli. Við erum að fá töluvert meira af stigum á okkur á útivelli heldur en heimavelli. Það sem ég er svekktastur með er að við spiluðum ekki sem lið sóknarlega,“

„Allskonar ákvarðanartökur, menn fyrsta möguleika í staðin fyrir að bíða eftir ennþá meiri möguleika. Menn að skjóta yfir varnarmann með galopinn félaga við hliðina á sér. Svona hlutir sem að fara í gegnum kollinn á mér núna,“ sagði Benedikt.

Það var gríðarleg barátta sem liðin buðu upp á í kvöld en í fjórða leikhluta siglir Njarðvík fram úr og hafði á endanum betur.

„Það er erfitt að „pin pointa“ það svona strax eftir leik en þeir voru bara sterkari á svellinu. Það var bara meiri vinnsla í þeim og meira „urgency“ og við að svekkja okkur á einhverjum lélegum dómum hvað eftir annað. Það var einhver smá meðvindur með þeim þarna en við hefðum getað tælað þetta betur,“

Eftir tapið í kvöld er deildarmeistaratitillinn ekki lengur í höndum Tindastóls sem þurfa nú að treysta á hagstæð úrslit í öðrum leikjum.

„Ég er fyrst og fremst bara að hugsa um núna að fara yfir frammistöðuna og vilja sjá meiri liðsbrag á þessu. Betri liðsvörn og betri leikstjórn á sókninni, betri ákvörðunartökur og svoleiðis. Bara meira boltaflæði sem hefur virkað best fyrir okkur. Mér er pínu brugðið hvað við vorum að taka vondar ákvarðanir í sókninni. Það er eitthvað sem við þurfum að laga einn, tveir og þrír,“ sagði Benedikt Guðmundsson.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira