Hin dönsku Bodil-verðlaun sem bera nafn leikkonunnar goðsagnakenndu Bodil Kjer og leikstjórans Bodil Ipsen eru fyrstu dönsku kvikmyndaverðlaunin sem gert hafa út við kynjaaðgreiningu við úthlutun. Félag danskra kvikmyndagagnrýnenda, sem veita verðlaunin ár hvert, fer nú að fordæmi stórra evrópskra verðlaunahátíða á borð við Berlinale-verðlaunin í Þýskaland og hin ensku Brit-verðlaun.
Engin aðgreining í flokki leikstjórnar
Danska ríkisútvarpið ræddi við Nönnu Frank Rasmussen, formann Félags danskra kvikmyndagagnrýnenda, sem segir þessa ákvörðun hafa verið lengi til skoðunar hjá félaginu.
„Við höfum rætt það í fleiri ár hvernig það geti verið að listræn gæði, sem er jú það sem við leggjum mat á við útdeilingu Bodil-verðlaunanna, geti verið upp á kyn komið,“ segir Nanna og tekur einnig fram að það séu leikararnir einir sem etja kappi í kynjaskiptum flokkum.
„Við höfum aldrei haft kynjaaðgreiningu í flokki bestu leikstjórnar eða kvikmyndatöku,“ segir hún.
Fyrirkomulaginu verður haldið aðgreiningarlaust í fjögur ár og að þeim liðnum mun kvikmyndaakademían danska endurmeta það.
Óttast að framlög kvenleikara verði ekki metin að verðleikum
Á meðan sumir líta á þessa ákvörðun sem mikið framfara skref hafa aðrir áhyggjur. Meðal þeirra er formaður félags danskra leikara, Benjamin Boe Rasmussen, sem óttast að framlög kvenleikara falli á milli skips og bryggju séu þær ekki í sérflokki.
„Við sjáum úti í heimi að það er tilhneiging til þess að konurnar gleymist og það óttast ég mikið,“ segir Benjamin Boe.
Hann segist ekki vera í vafa um það að dómnefndin muni leggja sig fram við að gæta þess að kvenleikarar fái þá viðurkenningu sem þær eiga skilið og að auðvitað séu sveiflur í kynjahlutfallinu á milli ára. Benjamin er hræddur um að þetta verði til þess að kvenleikarar fái ekki viðurkenningu fyrir framlög sín til kvikmyndalistarinnar til lengri tíma.