Steve Witkoff, sérstakur erindreki Bandaríkjaforseta, sagði í viðtali á CNN að hann hefði átt jákvæð samskipti við Vladímír Pútín í heimsókn hans til Moskvu í vikunni. Pútín segist tilbúinn að ræða vopnahlé en setti því mjög ströng skilyrði. Hann sagðist opinn fyrir tillögu Bandaríkjanna að þrjátíu daga vopnahlé, sem Selenskí Úkraínuforseti hefur þegar samþykkt.
Pútín segist hafa áhyggjur af því að skilmálar vopnahlésins komi til með að gagnast Úkraínumönnum en Witkoff vildi ekki tjá sig um þær mótbárur sem stjórnvöld í Rússlandi hafa hreyft við tillögunni. Bandarísku sendinefndinni hafi tekist að mjaka Rússum og Úkraínumönnum nær samkomulagi og segir Witkoff að hann muni hitta Trump Bandaríkjaforseta í dag.
„Hann tekur þátt í allri ákvarðanatöku og ég býst við því að forsetarnir muni eiga símtal í vikunni,“ segir hann.
Fyrr í vikunni lét Pútín þau ummæli falla á fundi með Alexander Lúkasjenka, einræðisherra Hvíta-Rússlands, að hann tryði því að Úkraínumenn myndu hagnast á þeirri tillögu sem liggur fyrir og að það myndi ekki tryggja langvarandi frið þar sem þær kvæðu ekki á um „rætur“ innrásar Rússlands.
Hann sagði einnig að rússneskar hersveitir væru í framsókn á víglínunni endilangri og sagði það ljóst hvaða áhrif vopnahlé myndi hafa þar. Erfitt væri að segja til um hver bæri ábyrgð á brotum gegn skilmálum vopnahlésins á tvö þúsund kílómetra víglínu. Hann hygðist þó ræða málið frekar við Donald Trump Bandaríkjaforseta.