Leikarar hafa verið samningslausir í fjórtán mánuði. Viðræðum var vísað til ríkissáttasemjara í nóvember en síðasti fundur hjá honum var 5. mars síðastliðinn.
Formaður Félags íslenskra lekara og sviðslistafólks, FÍL, sagði í viðtali á Vísi í dag að Leikfélag Reykjavíkur hefði ekki sýnt neinn samningsvilja og að stjórn þess hefði brugðist hlutverki sínu. FÍL lagði fram tillögu á föstudag sem samninganefnd Samtaka atvinnulífsins, fyrir hönd Leikfélagsins, hafnaði.
Boðuð verkföll munu hafa mest áhrif á sýninguna Þetta er Laddi. Sex af sjö verkfallsdögum falla á sýningardag hennar, en hún var frumsýnd 7. mars. Ólafur Egill Egilsson, leikstjóri sýningarinnar, segist auðvitað ekki spenntur fyrir verkföllum.
„Ég hef aftur á móti ríkan skilning á stöðu leikara. Þetta er nú flókið á þessu heimili því konan mín er leikkona við Leikfélagið, Ester Talía, og er einn af fulltrúum leikara í samninganefnd þannig að víglínan liggur þvert í gegn um eldhúsið,“ segir Ólafur.
Kostnaður við að fella niður sýningar of hár
Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari sagðist í samtali við fréttastofu í dag hafa áhyggjur af stöðunni og mjög langt sé milli aðila. Hann hefur ekki boðað til annars samningafundar í viðræðunum. Ólafur Egill segist ekki hafa miklar áhyggjur af því að málið verði ekki leyst, enda hafi viðræður staðið lengi yfir.
„Það hlýtur að styttast í að lausnin finnist. Kostnaður við að fella niður sýningar og hringja út alla sem eiga miða og finna nýjar dagsetningar hlýtur að slaga hátt upp í það sem stendur út af í samningaviðræðunum,“ segir hann.
„Þannig að þau hljóta að finna lausn á þessu bara á morgun svo við getum haldið áfram með gleðina og Ladderíið.“