Enski boltinn

Táningurinn Huij­sen orðaður við bæði Real Madríd og Liver­pool

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dean Huijsen hefur skorað tvö mörk í ensku úrvalsdeildinni. Annað þeirra kom í 3-0 sigri Bournemouth á Old Trafford.
Dean Huijsen hefur skorað tvö mörk í ensku úrvalsdeildinni. Annað þeirra kom í 3-0 sigri Bournemouth á Old Trafford. EPA-EFE/PETER POWELL

Hinn 19 ára Dean Huijsen, leikmaður Bournemouth, er einn mest spennandi miðvörður Evrópu þessa dagana. Hann er nú orðaður við bæði Real Madríd og Liverpool.

Fæddur í Amsterdam en alinn upp á Spáni og spilaði með akademíu Malaga áður en Juventus bankaði á dyrnar þegar hann var 16 ára gamall. Var lánaður til Roma á síðasta ári og sagði José Mourinho, þáverandi þjálfari Rómverja, að um væri að ræða einn efnilegasta miðvörð Evrópu.

Roma hafði hins vegar ekki efni á að kaupa hann sumarið 2024 og því stökk Bournemouth til. Það er ákvörðun sem félagið sér ekki eftir í dag. Hann kostaði 15 milljónir punda – 2,6 milljarða íslenskra króna – sem er ekki mikið þegar um er að ræða lið í ensku úrvalsdeildinni. Reikna má fastlega með að Bournemouth tvö- eða þrefaldi þá upphæð verði hann seldur í sumar.

Verandi fæddur í Amsterdam þá lék miðvörðurinn með yngri landsliðum Hollands þangað til hann var valinn í U-21 árs landsliðs Spánar á síðasta ári. Síðan hefur hann leikið sjö leiki fyrir U-21 árs landslið Spánar og hefur nú verið valinn í A-landsliðið fyrir komandi verkefni. 

Það myndi án efa hjálpa til að spila fyrir lið á Spáni og vitað er að Real Madríd hefur lengi fylgst með Huijsen. Þar pirra menn sig eflaust á því að kaupa hann ekki „ódýrt“ síðasta sumar þar sem ljóst er að hann mun nú kosta fúlgur fjár. Sky Sports greinir frá því að Liverpool sé einnig með Huijsen á óskalista sínum.

Leikmaðurinn Dean Huijsen er allt sem stórlið Evrópu vilja sjá í miðverði. Hann getur notað báða fætur, með góðar sendingar og staðsetningar en hikar þó ekki við að henda sér í tæklingar sé þess þörf. Þrátt fyrir ungan aldur er hann nokkuð líkamlega sterkur og einstaklega klókur.

Hann er stór ástæða þess að Bournemouth er í bullandi baráttu um sæti í Evrópukeppni á næstu leiktíð þrátt fyrir að vera í 10. sæti sem stendur. Þegar níu umferðir eru eftir af ensku úrvalsdeildinni er liðið aðeins fjórum stigum á eftir Manchester City í 5. sæti. Hver veit nema Huijsen verði áfram á Suðurströnd Englands fari svo að Bournemouth endi í Meistaradeild Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×